Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð sem flýtir stuðningsgreiðslum við sauðfjárrækt um nokkra mánuði. Með því að flýta greiðslunum bregst ráðherra við áhrifum COVID-19 veirunnar á íslenskan landbúnað, en aðgerðin mun sérstaklega nýtast þeim stóra hópi sauðfjárbænda sem stundar aðra starfsemi samhliða búskap, t.d. í ferðaþjónustu, og hafa fundið fyrir miklum áhrifum COVID-19 á greinina.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Undanfarnar vikur höfum við í mínu ráðneyti leitað allra leiða til að lágmarka neikvæð áhrif COVID-19 veirunnar á bæði landbúnað og sjávarútveg til lengri og skemmri tíma. Með þessari breytingu erum við að koma sérstaklega til móts við sauðfjárbændur og reyna að milda höggið sem veiran hefur á starfsemi sauðfjárbænda um allt land.“  

Ráðherra fól framkvæmdanefnd búvörusamninga að leita leiða til að færa til fjármuni innan ársins 2020, í samræmi við gildandi búvörusamninga, til að koma sérstaklega á móts við innlenda matvælaframleiðslu sem glímir nú við tímabundna erfiðleika. Ein tillaga nefndarinnar er sú að að flýta greiðslum til sauðfjárbænda þannig að greiðslu fjármuna, sem áttu að koma til framkvæmda þann 1. september og 1. október 2020, verði flýtt til 1. maí og 1. júní.

Af stjornarradid.is