Í gær kom finnski utanríkisráðherrann í opinbera heimsókn til Siglufjarðar, ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra Íslands. Með þeim fylgdi föruneyti frá báðum löndum.
Ísland er að taka við forystu í Norðurskautsráðinu af Finnum og verður í forystu þar næstu tvö ár. Í ráðinu eru einnig hin Norðurlöndin, Rússland, Kanada og Bandaríkin.
“Ráðið er einn helsti vettvangur sem fer með málefni norðurslóða og mikilvægi þess hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og áratugum, af augljósum ástæðum” sagði Guðlaugur Þór utanríkisráðherra í viðtali við Trölla. Ráðherrann hefur lagt mikla áherslu á að styrkja samstarfið við hin Norðurlöndin og telur mikilvægt að starf ráðsins gangi vel.
“Finnar hafa staðið sig vel og verið mjög hjálplegir í þessu stamstarfi, og okkur gengur mjög vel að vinna með þeim. Við erum ekki bara að taka við forystu í Norðurskautsráðinu heldur sömuleiðis í norrænu samstarfi. Við leggjum mjög mikla áherslu á hafið og sjáfbærni sem er lykilorðið í þessu sambandi, ekki bara umhverfisleg sjálfbærni, heldur einnig efnahagsleg og félagsleg” segir Guðlaugur Þór einnig.
“Við Norðurskautið búa um fjórar milljónir íbúa og við erum partur af því samfélagi, því fannst mér sjón sögu ríkari og ég veit að finnski ráðherrann var afskaplega ánægður með heimsóknina hér á Siglufirði og fannst mikið til þess koma sem hér er. Starfsemi eins og hér á Siglufirði er ekki það sem kollegar mínir sjá á hverjum degi, og það er lærdómsríkt að sjá hvað verið er að gera hér í úrvinnslu sjávarafurða. Hér er verið að gera miklu meira en bara selja fisk á disk, sem er nákvæmlega í samræmi við okkar áherslur þegar kemur að sjálfbærni, og ekki skemmir að Siglufjörður, Fjallabyggð og Eyjafjörður eru afskaplega fallegt svæði sem við sýnum auðvitað þeim gestum sem hingað koma. Ég tel líka mjög mikilvægt, af því að Ísland er meira en bara Höfuðborgarsvæðið, að fólkið sem við eigum nánasta samstarfið við fái að kynnast fleiru en Höfuðborgarsvæðinu, þó það sé mikilvægt, þá er Ísland meira en bara Höfuðborgarsvæðið, og við höfum margt að sýna og reynslu til að miðla víðar en þar”.
Ráðherrann taldi alveg kjörið að leyfa finnska ráðherranum að kynnast af eigin raun því sem við erum að gera hér og getum verið afskaplega stolt af, hvernig við erum að vinna með sjálfbærum hætti úr því sem áður var hent, og vísar þar til vinnslu á rækjuskel, “það eru fáir staðir betri en Siglufjörður til að kynnast því” sagði Guðlaugur Þór, sem sjálfur er Siglfirðingur, en foreldrar hans ólust upp hér. Móðursystir Guðlaugs Þórs er Regína Guðlaugs.
Utanríkisráðherra Finnlands, Timo Soini er í opinberri heimsókn til Íslands þessa dagana og fundaði hann með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra Íslands í Bátahúsi Síldarminjasafnsins á Siglufirði, þar sem fram fór tvíhliða fundur ráðherranna. Ráðherrarnir heimsóttu Genís hf og Ramma hf og fengu leiðsögn Anitu Elefsen um Síldarminjasafnið.
Með í för ráðherranna voru:
frá Finnlandi:
Ann-Sofie Stude, ambassador,
Olli Kantanen,
Katja Kalamäki,
René Söderman,
Ann-Christine Krank
og Mika Björninen.
Frá Íslandi:
Árni Þór Sigurðsson, ambassador,
Diljá Mist Einarsdóttir,
Einar Gunnarsson
og Hannes Heimisson.