Íslendingum sem enn eru á ferðalagi erlendis, eða þeim sem dvelja tímabundið erlendis og hyggja á heimferð á næstunni, er ráðlagt að snúa heim sem fyrst. Flugframboð fer ört minnkandi vegna víðtækra ferðatakmarkana á heimsvísu. Vísbendingar eru um að flugsamgöngur lokist innan örfárra daga, m.a. frá Spáni þar sem margir dvelja enn.

EKKI er verið að loka landinu heldur ríkir mikil óvissa um hvernig farþegaflugi verður háttað á næstu dögum og vikum.

Utanríkisþjónustan á í nánu samstarfi við utanríkisþjónustur Norðurlandanna og fylgist með flugframboði norrænna flugfélaga. Mikilvægt er að fólk sem á í erfiðleikum með að komast burtu þaðan sem það er statt hafi samband við borgaraþjónustuna.

Utanríkisráðuneytið hvetur þá sem eru komnir heim til að afskrá sig úr grunninum svo hægt sé að fá sem besta mynd af því hversu margir eru enn erlendis. Áfram hvetjum við alla sem eru enn á ferðalagi erlendis til að skrá sig í grunninn.

Hægt er að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins með skilaboðum á Facebook, með tölvupósti á hjalp@utn.is eða í neyðarsíma borgaraþjónustu +354 545-0-112 sem er opinn allan sólarhringinn.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins

Sími: 545-0-112 

Netfang: hjalp@utn.is

Upplýsingar og fyrirspurnir eru einnig á Facebook

www.facebook.com/utanrikisthjonustan

Íslendingar á ferðalagi erlendis skrái sig í gagnagrunn utanríkisráðuneytisins: www.utn.is/covid19