Réttarstaða heilbrigðisstarfsfólks vegna alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu til skoðunar

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að taka til skoðunar réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks í tengslum við tilkynningar og rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu.

Markmiðið er að bæta umgjörð og verklag við tilkynningar og rannsókn óvæntra atvika sem varða líf sjúklinga með áherslu á að auka öryggi sjúklinga almennt, styrkja öryggismenningu og skapa heilbrigðisstarfsfólki betri starfsskilyrði.

Ýtarleg greining á lagaumhverfi og verklagi í tengslum við óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu, bæði hér á landi og í nágrannaríkjum, fór fram á vegum starfshóps heilbrigðisráðherra fyrir nokkrum árum og skilaði hópurinn vandaðri skýrslu ásamt tillögum til úrbóta árið 2015.

„Ég tel nauðsynlegt að taka þessi mál upp að nýju og nýta þá vinnu sem fyrir liggur í þessum efnum“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Hann hefur því ákveðið að skipa nýjan starfshóp með fulltrúum heilbrigðis- og dómsmálaráðuneytis, embættis landlæknis, lögreglu og ákæruvalds og er honum jafnframt ætlað að hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila, s.s. félög heilbrigðisstarfsfólks auk félaga, samtaka og annarra aðila sem talað geta máli notenda heilbrigðisþjónustu. Hópnum er ætlað að rýna tillögur skýrslunnar og skoða áhrif þess ef refsiábyrgð yrði breytt í samræmi við skýrsluna.


Mynd: stjornarradid.is