Hreinlega hægt að synda í villum og vitleysu, segir Jón Ólafur”

Fyrir viku síðan skrifaði einn af greina- og pistlahöfundum Trölla.is harðorða ádeilugrein um að Páll Baldvin Baldvinsson fari „frjálslega með ritefni sitt“ í bókinni Síldarárin 1867-1969.

Jón Ólafur Björgvinsson hefur til fjölda ára birt hugverk sín á hinum gamla virðulega bæjarsögu miðli siglo.is og einnig hér allt frá stofnun trolli.is vorið 2018. 

Þessi ádeilugrein vakti mikla athygli, ekki bara hjá gömlum tryggum lesendum Jóns Ólafs Björgvinssonar hér á Trölla heldur á landsvísu og var skrifað um þetta mál í fjölmiðlum landsins.

Í dag birtist hér útdráttur úr vægast sagt SKÖRPUM ritdómi frá Hörpu Hreinsdóttur um þetta 1.152 blaðsíðna verk

Hann styður mjög mikið rök sem Jón Ólafur færir fram í sinni ádeilugrein hér á trolli.is. Sjá ádeilugrein og rök Jóns hér:

VAFASÖM-SÍLDARSÖGU-SAGNFRÆÐI ? COPY & PASTE BÓKMENNTIR

Niðurstaða Hörpu:

Ég skoðaði nokkuð vandlega örlítið brot af textum, myndum og skrám í bókinni og tók stikkprufur úr því efni sem ég taldi mig þekkja til fyrir.
Niðurstaða mín, eftir að hafa skoðað örlítið brot af Síldarárunum Páls Baldvins Baldvinssonar, er í stuttu máli sú að hörmulega sé farið með texta annarra og fátt bendi til að hann hafi sjálfur skrifað mikið meira en myndatexta, inngang að úrklipptum greinum og stöku þýðingu. Finna má fjölda villa í öllu þessu efni þótt einungis hafi verið teknar nokkrar stikkprufur. Reynt er að gefa bókinni fræðilegt yfirbragð með ítarlegum skrám í lokin. Því miður eru þessar skár útbíaðar í  villum.

(Útdráttur úr Ritdómi Hörpu Hreinsdóttur. Birt með leyfi höfundar.)

Í grein á mbl.is þar sem vísað er í viðtal við bæði Jón Ólaf og PBB segir Páll Baldvin í lokinn:

 „Það er náttúrulega leiðinlegast fyrir okkur sem unnum að þessari bók að þetta skuli hafa farið í gegnum síu sem er í fyrsta lagi ég, í öðru lagi ritstjóri og í þriðja lagi prófarkalesarar.”

„Við vonum að þetta sé eina tilvikið þar sem það er ekki sómasamlegur frágangur á heimildavísun í þessi verk. Reyndar eru þarna hundruð heimilda og tilvísana. En svona lagað getur gerst. En þetta er samt sem áður óafsakanlegt og okkur þykir þetta ákaflega miður,“ segir Páll.

rosa@mbl.is

Sjá grein í heild sinni hér: Sak­ar Pál Bald­vin um ritstuld

Eftir langan lestur á ritdómi Hörpu sem er mjög svo vel skrifaður og með málefnalegum rökum verður svarið að vera:

“Nei, því miður Páll Baldvin þá er þetta sko alls ekki eina tilvikið, hér er hreinlega hægt að synda í villum og vitleysu úr þessum doðranti frá þér”, segir Jón Ólafur í samtali við trolli.is. eftir að hafa lesið ritdóm Hörpu.

Í ritdómi Hörpu er það augljóst að þetta er ekkert einsdæmi, þó svo að Harpa undirstriki að hún sé ekki búin að fara yfir ALLT efni bókar PBB. 

En magnið af villum varðandi heimildartilvísanir og magnið af villandi breyttum fyrirsögnum úr annarra höfunda greinum og brestum í nákvæmni þegar kemur að tilvísunum í heimildaskrá og spurningar um hvaða hlutar koma hvaðan og hvað PBB skrifar sjálfur, eða þýðir sjálfur eða ekki, er samkvæmt ritdómi Hörpu gjörsamlega ómögulegt að reyna að finna út og sama gildir um tilvísanir í hvaðan margar ljósmyndir eru fengnar og verst virðist þetta vandamál vera þegar kemur að heimildum sem eru „fengnar að láni af netinu.“ 

Harpa telur það nokkuð ljóst að í máli Jóns Ólafs sé um hreinan og beinan ritstuld að ræða í tveimur tilfellum, bæði varðandi sundur klippta sögu og Copypaste myndaskýringar texta.

Harpa bendir einnig á að “Síldarstúlku í Hollywood style” ljósmyndir sem Jón birti sögu um veturinn 2016 séu rétt en eins og Jón bendir á í sinni ádeilugrein rangfeðraðar í bók PBB. 

Þegar kemur að slæmum villum sem gætu snert taugar Siglfirðinga illa er hægt að nefna dæmi þar sem Harpa vitnar í tilheyrandi myndatexta varðandi Hrímni HF á bls. 777.

Allir Siglfirðingar sjá að Hrímnisplanið SÉST EKKERT Á ÞESSARI LJÓSMYND.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa ritdóm Hörpu Hreinsdóttur í heild sinni geta gert það í ró og næði hér:

Ritdómur um Síldarárin

Trölli.is hefur fengið leyfi frá Hörpu að birta valda búta úr hennar ritdómi (Sjá hér neðar) en við mælum eindregið með því að þið lesendur góðir lesið þetta í heild sinni svo að enginn sé að túlka orð hennar og mynda sér skoðanir einungis út frá stuttum tilvísunum.

Harpa skrifar:

“Páll hefur sankað að sér ógrynni af heimildum úr ýmsum áttum (mest þó úr dagblöðum), klippir hiklaust út texta eftir aðra og límir alla vega saman án þess að reyna að meta trúverðugleika heimilda eða velta fyrir sér hvað muni passa hverju sinni.”

Síldarminjasafn Íslands reynist Páli gullkista af heimildum, sem eðlilegt er, og sama gildir um hinn eldri vef Siglufjarðar, siglo.is. Það er hins vegar upp og ofan hversu vönduð vinna hans úr heimildunum er, eins og rakið verður síðar í þessum ritdómi. Sama gildir um umgengi um þriggja binda verkið Silfur hafsins-Gull Íslands.8

“Vefsöfn með leitarmöguleika, á borð við dagblaða- og tímaritaritasafnið timarit.is, eða einfaldlega leitarvél bókasafna, leitir.is hafa líka komið sér prýðilega.”

“Hér tek ég fram að ég er ekki að finna að því að fólk leiti heimilda eða nýti heimildir – það er auðvitað óhjákvæmilegt ef skrifa á bók byggða á heimildum. Ég er hins vegar hneyksluð á því hvernig Páll Baldvin notar heimildir, ef marka má þær stikkprufur sem ég tók: Að breyta texta annarra, að klippa sundur texta annarra og raða upp á nýtt, að breyta nær ævinlega fyrirsögnum á textum annarra án þess að láta þess getið hafa hingað til þótt sóðaleg vinnubrögð. Að reyna ekki að meta heimildir heldur birta hvað sem er í belg og biðu mætti kalla „háskalega“ meðferð heimilda, að planta beinlínis inn villu í beina þýdda tilvitnun er fyrir neðan allar hellur og að taka vandlega merktar þýðingar annars manns orðrétt af vefsíðu án þess að geta að nokkru nema vefslóðar í TILVÍSANASKRÁ eða VEFHEIMILDUM (eða láta að engu getið) er auðvitað bara ritstuldur.”

“Páll Baldvin hefur sjálfur fjallað um svona bókarhlunk eins og Síldarárin hans er, í ritdómi um Sögu Akraness I, sem hann var lítið hrifinn af: „Þyngsta verk ársins er komið út …. Stærð og fyrirferð er slík að bókina er aðeins hægt að lesa á borði …1 Saga Akraness I  vó 18 merkur. Síldarárin vega 14 merkur. Munurinn liggur fyrst og fremst í mismunandi vönduðum pappír.”

“Síldarárin eru í rauninni miklu frekar úrklippusafn Páls Baldvins Baldvinssonar, með einstaka málsgrein eftir hann sjálfan, en rit eftir hann. Egill Helgason tók svo til orða í viðtali við Pál Baldvin í Kiljunni að þessa bók hefði Páll saman setta.9 Hið tvíræða orðalag Egils lýsir bókinni vel. Því ólíkt gömlu Öldunum okkar leggur Páll sig í líma til að texti þekkist ekki, t.d. með því að gefa blaðaúrklippum nær undantekningarlaust nýjan titil, klippa framan af þeim og setja eigin umorðun á þeim texta í staðinn og fleira þess háttar.”

“Það má væntanlega treysta á það að venjulegur lesandi fer ekki að leggja á sig að fletta upp heimildum, í TILVÍSANASKRÁ aftast, því bara það að fletta þessum bókarhlunki kafla af kafla er átak. Og þótt vísað sé í eitthvað í TILVÍSANASKRÁ kann að vera ómögulegt að finna heimildina í PRENTAÐAR eða ÓPRENTAÐAR heimildir, svo ekki sé minnst á VEFHEIMILDIR.”

“Sem fyrr sagði er vinna Páls Baldvins fyrst og fremst fólgin í því að klippa út texta eftir aðra og líma saman. Hann gerir enga tilraun til að meta þessa texta og treður stundum inn eigin villum í þessari úrklippur.”

“Þess vegna hefst klausan Elliði ferst (bls. 1003) þannig: „Þann 10. febrúar var togari Tryggva Ófeigssonar, Elliði, um það bil 15 sjómílur …“  Þetta hræðilega slys, þegar togarinn Elliði fórst, varð í febrúar 1962 og þá höfðu Síldarverksmiðjur ríkisins starfrækt bæði Elliða og Hafliða, togara frá Siglufirði, um nokkurt skeið. Tryggvi Ófeigsson kann að hafa verið framkvæmdarstjóri hjá SR en var örugglega ekki eigandi skipsins. (Í TILVÍSANASKRÁ vantar svo einhverja heimild því Páll hefur klippt saman heimild úr dagblaðinu Vísi og einhverja aðra heimild. Þetta meinta eignarhald Tryggva Ófeigssonar er ekki að finna í Vísis-fréttinni.)”

Og í kafla sem Harpa Hreinsdóttir nefnir einfaldlega, RITSTULDUR skrifar hún eftir farandi:

“V. kafli: Ritstuldur

Svo sem komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið hefur Páll Baldvin verið ásakaður um ritstuld. Á bls. 751-752 er texti sem ber yfirskriftina Sumartúr til Íslands, myndskreytt með kviknöktum manni sem sagður er á íslensku fiskiskipi.

Í TILVÍSANASKRÁ segir um heimild fyrir þessum texta: „Sumartúr http://www.siglo.is/frettir/sagan-um-svaninn-sildveidar-landlega-og-slagsmal-o.fl.-a-siglo-1936. Sótt 21.7. 2019.“

Textinn sem Páll tekur traustataki af vef Siglufjarðar heitir SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935.  Í upphafi textans kemur fram að Edmond Bäck skrifaði þetta niður eftir frásögn föður síns, Johan Bäck. Raunar kemur það sama fram á mynd af handriti Edmonds á vefsíðunni.

Fyrir neðan fyrirsögn á vefsíðunni er borði þar sem nafn þess sem setti frásögnina á vefinn siglo.is kemur fram, þ.e. Jón Ólafur Björgvinsson. Í lok textans kemur skýrt fram að sami maður, Jón Ólafur, þýddi textann með leyfi skrásetjara og fékk einnig sérstakt leyfi til að birta textann og flestar myndir sem hann skreyta á vefsíðunni. Hvorki Jóns Ólafs né þeirra feðga Johan og Edmond Bäck er getið í TILVÍSANASKRÁ eða NAFNASKRÁ. Vefslóðina er hins vegar að finna í TILVÍSANASKRÁ og í skrá yfir VEFHEIMILDIR, án skýringar.

Jóni Ólafi Björgvinssyni brá að sjálfsögðu í brún þegar hann áttaði sig á að textinn í bók Páls sem hann kannaðist svo mjög við var hans eigin þýðing.11 Að venju klippir Páll svo textann dálítið til, án þess að geta þess að nokkru.

Af þessum ritstuldi hefur hlotist nokkur rekistefna, sem von er. Páll Baldvin sagði þetta vera mistök við frágang á heimildaskrá:

 …að heimilda var ekki getið að fullu um þýðingu og styttingu Jóns Björgvinssonar [?]  á tveimur stöðum í bókinni: birt var þýðing hans á texta eftir Edmund Back [svo] sem Jón birti á vefnum Siglo.is og einungis vísað á vefslóð en fylgdi ekki nafn höfundar né þýðanda. Þetta er miður og áafsakanlegt [svo], en nákvæm tilvísun fór framhjá mér, ritstjóra og prófarkarlesurum. Bið ég afsökunar á þessum mistökum því ekkert er fjarri okkur sem unnum ritið til prentunar að sleppa svo mikilvægum upplýsingum. 12

Ekki varð það til að róa Jón Ólaf að þegar Páll Baldvin bað hann fyrst afsökunar sendi hann honum fyrir mistök tölvupóst sem reyndist vera innanhúspóstur Forlagsmanna um þetta mál. Þar var farið háðuglegum orðum um Jón Ólaf.13

Páll Baldvin hefur í samtölum við fjölmiðla lítið viljað tjá sig um ritstuldinn nema hamrað á því að hann hafi ekki verið með vilja framinn og vonandi sé þetta eina dæmið um mistök í skráningu. 14

Það er þá óneitanlega merkilegt að Páll Baldvin sækir á öðrum stað pukrunarlaust í smiðju Jóns Ólafs Björgvinssonar án þess að geta hans að nokkru. Þetta er textabúturinn Úr sænsku jólablaði á bls. 839. Í TILVÍSANASKRÁ er einfaldlega ekki vitnað til neinnar heimildar. Í skrá yfir VEFHEIMILDIR er ekki vitnað í slóð á texta Jóns Ólafs. En textar Páls og Jóns Ólafs eru svo sláandi líkir, raunar alveg eins að stórum hluta, að það leikur enginn vafi á því hvaðan efnið er upprunnið. Jólablaðið sem um ræðir, Vi, er ekki að finna í PRENTAÐAR HEIMILDIR í Síldarárunum (en tímarit eru skráð þar) svo hafi Páll ekki stolið orðrétt hluta af stuttum þýddum texta Jóns Ólafs Björgvinssonar að mestu og umskrifað örlítið brot af upphafs klausu Jóns Ólafs hefur sænski textinn úr Vi  væntanlega fallið Páli í skaut af himnum ofan!

Um þennan ritstuld hefur Páll Baldvin þagað þunnu hljóði þótt Jón Ólafur Björgvinsson hafi reynt að rukka hann um svör frá því fyrri ritstuldurinn uppgötvaðist.

Grein Jóns Ólafs Björgvinssonar, þaðan sem Páll Baldvin sækir efnið, er að finna á vefnum Siglo.is og heitir þar SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945.

Í lok greinarinnar segir: Íslenskur texti og þýðing: Jón Ólafur Björgvinsson Sænskur texti: VI vikublað Nr: 50, 1945  Ljósmyndir: Jöran Forsslund. Í miðri greininni segir Jón Ólafur þó: „Það er ekki tekið fram hver var blaðamaður eða ljósmyndari, en líklega heitir ljósmyndarinn Jöran Forsslund.“

Síðar fékk Jón Ólafur skönnuð eintök af þessum myndum frá útgefanda, sem og aukamyndir sem teknar voru í þessum leiðangri Vi  til Siglufjarðar sumarið 1945 en ekki notaðar í blaðinu. Við nánari athugun Jóns Ólafs kom svo í ljós að alls ekki var tryggt að Jöran Forsslund hefði tekið þessar myndir. Undir þetta taka fleiri. 15

Það er tæpast tilviljun að Páll Baldvin birtir nokkrar myndir úr sömu syrpu og Jón Ólafur birti úr Vi 1945, hér og þar í bókinni. Þær myndir í Síldarárunum lét Páll kaupa af Sjöberg Bildbyrå, sænsku myndasölusafni sem hafði keypt upp lagerinn hjá Company Saxon & Lindström fyrir nokkrum áratugum, þar á meðal þessar myndir. Akkúrat þessar myndir og fleiri úr sama myndasölusafni eru allar eignaðar Jöran Forsslund eða Jöran Forslund í bók Páls. Þær eru hins vegar alveg ómerktar í safni Sjöberg Bildbyrå, bæði frumeintök og eintök á vef. (Hér má sjá þessar gullfallegu myndir, ásamt fleirum, í safni Sjöberg Bildbyrå.)”

Og í næsta kafla ræðir Harpa um meðferð ljósmynda í bók PBB.

“VI. kafli: Meðferð mynda

Fleiri villur má nefna í myndatextum sem Páll hefur mögulega samið sjálfur en þá um Raufarhafnarmyndina. T.d. er stutt klausa á bls. 777  um heimsókn danska ríkisarfans og konu hans til Siglufjarðar árið 1938, mynd af þeim hjónum á bryggjunni og myndatextinn fylgir í klausunni. Þar segir m.a.: „Fjær er síldarsöltunarstöð Óskars Halldórssonar en nær er Hrímnir, Hrímnisplan.“ Kunnugir segja mér að það sé af og frá að sjá megi Söltunarstöðina Hrímni og Hrímnisplan á þessari mynd.19

Og Harpa nefnir fleiri dæmi og segir meðal annars um ruglingslega notkun á ljósmyndum.

”Í þessu dæmi býr Páll Baldvin sem sagt til allt aðra sögu í sínum myndatexta en er í heimildinni þar sem myndin birtist.”

Sem áður sagði eru myndir oft í engum tengslum við texta. Það er eins og litið hafi verið yfir textablokkina og hugsað sem svo: Hér vantar mynd. Og svo er bara einhver mynd tekin og henni klastrað einhvers staðar í opnuna.!”

Og Harpa heldur áfram:

“Ósmekklegasta dæmið um svona vinnubrögð er á bls. 1031. Síðuna þekur næstum, löng úrklippa úr Morgunblaðinu þar sem klipptur textinn fjallar um að vélbáturinn Leifur Eiríksson hafi farist kvöldið áður, þ.e. 30. ágúst 1963. Einn sjómaður fórst. Inn í þennan texta er klesst ljósmynd af glugga í afgreiðslu Tímans í Bankastræti og myndatextinn fjallar um prentaraverkfall í nóvember 1963!

Á bls. 172 í Síldarárunum er mynd af bát að draga reknet (drifnet). Tilvísun í MYNDASKRÁ er svona, stafrétt: „Drifnet. Hreinn Ragnarsson. 2007, bls. 245.2.b.Guðni Þorsteinsson.“

Fleiri dæmi um líklega rangfeðrun mynda, ófeðrun mynda, ruglandi í myndatexta, smekkleysi í myndskreytingu og rugli í MYNDASKRÁ mætti tína til. Ég nefni þó aðeins eitt dæmi enn.

Um hina frægu og fögru kápumynd Síldaráranna segir:

Forsíðumynd: Erla Nanna Jóhannesdóttir í kaffihléi á Siglufirði 1950.
Hans Malmberg. Billedarkivet. Stokkhólmi.

Hans Malmberg tók vissulega myndina. En hún getur ekki verið fengin úr Billedarkivet Stokkhólmi af því það er ekki til (fyrir utan það að sænskt safn héti varla dönsku nafni). Norræna safnið í Stokkhólmi á þessa mynd og líklega hefur Páll Baldvin (sem er myndaritstjóri Síldaráranna) ruglast á bildarkiv Nordiska museet í Stokkhólmi, þ.e. þeim stafræna hluta Norræna safnsins sem birtist á digitalmuseum.seMyndina má sjá hér.”

Í lok ritdóms Hörpu er komið inn á flókin dæmi um hvernig á og ekki á að vinna með tilvísannir í heimildir og segir hún þar meðal annars.

“Sumir þýðendur eru hunsaðir algerlega, t.d. Jón Ólafur Björgvinsson (eins og áður hefur komið fram) en aðrir ekki, t.d. Smári Geirsson og Bjarni Þórðarson. Næstum alls staðar þar sem bók Kari Shetelig Hovland frá 1980 (bókin heitir Norske seilskuter på Islandsfiske) ber á góma í TILVÍSANASKRÁ er bætt við: „Stuðst er við þýðingu Smára Geirssonar og Bjarna Þórðarsonar sem birtist í Austurlandi en textinn er nokkuð styttur.“ Lesandi er að vísu engu nær um hvar nákvæmlega þessi þýðing/þýðingar er(u) því þeir Smári og Bjarni eru ekki skráðir fyrir neinni þýðingu í PRENTUÐUM HEIMILDUM, þar er einungis að finna tímaritið Austurland 1.-30. árgangur.

Það myndi æra óstöðugan að telja upp allar þær villur sem ég fann í TILVÍSANASKRÁ og PRENTUÐUM HEIMILDUM.

Í heimildaskrá yfir ÓPRENTAÐAR HEIMILDIR er að finna fjölda heimilda sem ættu heima undir VEFHEIMILDIR því þær eru sóttar á vefsetrið Sarpur og vefslóð gefin upp hverju sinni (þótt frumeintök séu geymd á þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands).

Þar eru og skráð  skjalasöfn ýmis en gleymist að skrá Skjalasafn Húsavíkur, þaðan sem teikning Jóns Jónssonar Víðis, bls. 550, er sögð fengin í MYNDASKRÁ. (Raunar er ekkert til sem heitir Skjalasafn Húsavíkur og líklega er Páll að meina Héraðsskjalasafn Þingeyinga, breytir þó ekki því að skjalasafnið ætti að skrá.)”

“Hvað varðar skrána VEFHEIMILDIR er einfalt mál að dæma hana:

Hún er að stærstum hluta algert rugl!”

Það er samdóma álit ritstjóra trölla.is að ritdómur Hörpu Hreinsdóttur er mjög svo málefnalegur og vel skrifaður nútíma ritdómur.

Í samtali við Jón Ólaf í dag segir hann að eftir að hafa lesið þennan ritdóm yfir ÞRISVAR, að ef hann myndi leyfa sér að hugsa upphátt:

“Er þetta ekki bara stærsti ÚTGÁFU SKANDALL ÍSLANDS….EVER!! – að minnsta kosti í kílóum talið.”

“Stærra mál í rauninni en ritstuldur Hannesar Hólmsteins”, segir Jón Ólafur og heldur áfram:

“Það hefur glatt mig mikið að eftir margir hafa komist yfir fyrsta “sjokkinn” eftir birtingu minnar greinar sem í byrjun fjallaði mikið um að verja litla Davið frá árásum Golíats. Þá hafa fleiri og fleiri farið að kíkja betur á það sem ég var í rauninni að reyna að vekja umræðu um en það eru meira en mikið réttlætanlegar spurningar eins og:

Hverskonar bók er þetta eiginlega ?

Hvaða munur er á hugverkum af vef og í bók ? (sama vinna á bakvið, eini munurinn er prentkostnaður)

Hversvegna geta bókaútgefendur eignað SÉR ÓKEYPIS ritefni annarra af vefsíðu og síðan krafið almenning um greiðslu fyrir lestur á ritefni sem þeir eiga ekki einu sinni sjálfir? Eða taka sér það bessaleyfi án þess að spyrja kóng eða prest misþyrma og breyta mínu efni….ég bara skil þetta ekki.

Eru höfundarréttarlög enn í gildi á Íslandi ? Eða er það þannig í þessu tilfelli líka að LÖG ERU TEYGJANLEG á þessari blessaðri eyju og að sumir eru svo stórir “KARLAR” að það hreinlega gilda önnur lög fyrir þá?
Ég bara spyr ?

Svona gæti ég lengi haldið áfram og það gleður mig að vefmiðillinn trolli.is leggur sig fram við að verja ritverk sinna ólaunuðu starfsmanna.”

Samsett mynd: Trölli.is