Á 636. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var lagt fram erindi Björns Valdimarssonar, dags 16.01. 2020 er varðar öryggi barna og ungmenna í umferðinni. Sjá hér.

Bæjarráð þakkar erindið og vill koma því á framfæri að þegar er hafin vinna hjá sveitarfélaginu sem miðar að því að auka öryggi gangandi vegfaranda í umferðinni.

Björn Valdimarsson birti færslu á facebooksíðu sinni í morgun færslu ásamt mynd sem vakið hefur mikla athygli og heitar umræður um málefnið. Hann veitti Trölla.is góðfúslegt leyfi til að birta færsluna.

“Þessi mynd var tekin við Aðalgötuna á Ólafsfirði þar sem börn þurfa að fara yfir á leið til skóla og íþróttamannvirkja. Þarna er reyndar mjög illa staðsett og illa merkt gangbraut en meginmálið nú er að nú þar er engin götulýsing á stórum kafla. Á myndinni má sjá tvo af fjölmörgum ljósastaurum sem ekki er ljós á. Þegar einn bæjarbúi leitaði upplýsinga hjá Vegagerðinni (sem ber ábyrgð á lýsingu á þjóðvegum í þéttbýli) um hvernig á þessu stæði, fékk hann þau svör að úr þessu yrði ekki bætt í vetur þar sem skipta ætti staurunum út í sumar. Þarna er töluverð umferð, þar á meðal gámaflutningabíla og gangandi barna. Vegagerðin skapar mikla slysahættu með þessu aðgerðarleysi.

Ég hef reyndar haft ákveðnar áhyggjur af öryggi í barna í umferðinni í Fjallabyggð í töluverðan tíma. Fyrir þó nokkrum árum skrifaði ég grein um málið sem birtist á netmiðlum hér og fékk sterkar undirtektir hjá fólki en litlar hjá yfirvöldum. Ég mætti tvisvar á síðasta ári á opna fundi hjá bæjarfulltrúum þar sem ég lagði fram punkta um þessi mál og var mér vel tekið, en ekki ber mikið á úrbótum. Ég skrifaði svo bæjarráði í síðustu viku og fékk svar þar sem ráðið ráðið “þakkar erindið og vill koma því á framfæri að þegar er hafin vinna hjá sveitarfélaginu sem miðar að því að auka öryggi gangandi vegfaranda í umferðinni”.

Í sömu viku les ég í fundarferð að skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að hámarkshraði verði hækkaður í 40 km. í bænum að undanskildum götum við skóla, leikskóla og íþróttamiðstöðvar, þar verði hann lækkaður í 30 km. Þetta er lagt til á sama tíma og fjölmörg sveitafélög hafa verið að lækka hámarkshraða í íbúðarhverfum í 30 km., ekki síst í þröngum götum eins og víða er að finna hér í Fjallabyggð. Reyndar er ekki að sjá á fundargerðum nefndarinnar að fagleg eða ábyrg umræða hafi farið fram um umferðarmál þar.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst sjáanlegur árangur af baráttu minni og annarra fyrir auknu öryggi í umferðinni hér rýr. Ég hef t.d. ekkert en séð um úrbætur á gangbraut við skólann í Ólafsfirði eða aðgerðum til að hægja á umferð við íþróttavöllinn þar. Einnig hafa foreldrar á Siglufirði lengi barist fyrir úrbótum við íþróttamiðstöðina sem enn bólar ekkert á. Svona mætti áfram telja. Aðgerðir til að bæta umferðaröryggi eru yfirleitt ekki dýrar og oftar er þetta frekar spurning um áherslur og áhuga bæjarstjórnar en fjármagn”.

Mynd: Björn Valdimarsson