Upphaflega voru það feðginin Þórarinn Hannesson og Elín Helga dóttir hans sem byrjuðu með Rokkstundina á FM Trölla.

Síðar kom að því að Elín Helga hleypti heimdraganum og fór í nám, svo eftir sat faðirinn, en hann hefur í þessum þáttum verið ötull við að leika rokktónlist frá ýmsum tímabilum rokksögunnar og ausa úr viskubrunni sínum um allt milli Himins og Jarðar þegar kemur að rokktónlist.

Nokkur mismunandi þemu hafa verið viðhöfð í þessum þáttum og upp á síðkastið hefur Þórarinn tekið fyrir ákveðin ár rokksögunnar og fjallað um það helsta sem var athyglivert á þeim tíma.