Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu húsa á sunnanverðum Siglufirði sem rýmd voru í öryggisskyni á miðvikudag vegna snjóflóðahættu.

Óvissustig er þó enn í gildi og áfram er hætta af völdum snjóflóða þar sem snjóalög kunna enn að vera óstöðug, m.a. sunnan við leiðigarðinn Stóra-Bola, þó rýmingu húsa neðan garðsins hafi verið aflétt. Þar þarf að sýna sérstaka aðgæslu.

Einnig er tilefni til þess að árétta að óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi er enn við líði.

Stór snjóflóð hafa fallið undanfarna daga á Tröllaskaga, m.a. við Smiðsgerði í austanverðum Skagafirði, á Öxnadalsheiði og á Ólafsfjarðarveg, síðast núna í morgun þegar snjóflóð féll yfir veginn um Öxnadalsheiði.

Vegfarendur og ferðalangar þurfa því að hafa varann á þegar þeir fara um svæði þar sem snjóflóð geta fallið. Nánar á vefnum okkar: https://www.vedur.is/…/haettustig-vegna-snjoflodahaettu…