Hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman verður 200 og nálægðarregla tekin upp þegar nýjar reglur um takmarkanir á samkomum taka gildi sunnudaginn 25. júlí. Þetta er meginefni nýrrar reglugerðar Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum vegna COVID-19 sem hugsaðar eru til skamms tíma á meðan verið er að ná tökum á mikilli fjölgun smita síðustu daga. Breytingarnar eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis, með þeirri breytingu að höfðu samráði við sóttvarnalækni að hámarksfjöldi í erfidrykkjum verður 200 manns.

Covid restrictions as of 25. July – Click here for English version.

Mikilvægt er talið að grípa eins fljótt og auðið er til takmarkana innanlands til að koma böndum á aukna útbreiðslu smita. Með mikilli útbreiðslu og smiti hjá viðkvæmum hópum er hætt við alvarlegum afleiðingum.

Í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis er þegar hafinn undirbúningur að því að bjóða þeim sem bólusettir hafa verið með bóluefni Janssen seinni bólusetningu í ágúst. Einnig verður einstaklingum með undirliggjandi ónæmisvandamál og þeim sem talið er að tveir skammtar veiti ekki nægilega góða vörn gegn COVID-19 boðinn þriðji skammtur bóluefnis.

Samkomutakmarkanir taka gildi 25. júlí og gilda til og með 13. ágúst.

HELSTU TAKMARKANIRNAR ERU ÞESSAR:

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 200 manns. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin.
  • Nándarregla verður almennt 1 metri. Börn fædd 2016 og síðar verði undanþegin.
  • Grímuskylda verður tekin upp innanhúss og þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu.Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin.
  • Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verði 200.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum sem og sund- og baðstöðum verður heimilt að hafa opið fyrir 75% af hámarksfjölda leyfilegra gesta. Sameiginlegan búnað skal sótthreinsa milli notenda.
  • Söfnum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta.
  • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna heimilar með og án snertinga með 100 manna hámarksfjölda. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými sem skulu skráðir í sæti. Veitingasala óheimil á keppnisstöðum.
  • Æfingar og sýningar sviðslista og sambærilegrar starfsemi heimilar með allt að 100 manns á sviði. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými, svo sem í bíóhúsum. Heimilt að hafa hlé en enga veitingasölu í hléum. Skrá skal gesti í sæti.
  • Hámarksfjöldi gesta við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verður 200.
  • Opnunartími veitingastaða, skemmtistaða o.þ.h. verður til kl. 23:00 (tæma þarf staði fyrir miðnætti) og hámarksfjöldi gesta 100 manns í rými. Vínveitingar bornar fram til sitjandi gesta. Skrá skal gesti.
  • Tjaldstæði og hjólhýsasvæði fari eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis og Ferðamálastofu.

Reglugerð heilbrigðisráðherra

Minnisblað sóttvarnalæknis

Mynd/ aðsend