Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, undirrituðu í morgun samning um UNESCO-skólaverkefnið.
Verkefnið hófst sem tilraunaverkefni fyrir rúmum sjö árum síðan. UNESCO-skólum hefur fjölgað síðustu tvö árin og eru þeir eru nú tólf talsins: einn leikskóli, fjórir grunnskólar og sjö framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í umsóknarferlinu. Verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi er Kristrún María Heiðberg.
Samningur þessi er tímamótasamningur og sá fyrsti sinnar tegundar. Hann er liður í að efla fjölbreytt starf á vettvangi UNESCO og hluti af áherslum Íslands sem aðili að framkvæmdastjórn UNESCO árin 2021-2025.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:
„Það er mikilvægt að undirbúa börn fyrir framtíðina með hliðsjón af gildum heimsmarkmiðanna. UNESCO-skólaverkefnið er liður í því starfi og hlakkar ráðuneytið til frekara samstarfs á komandi árum“.
Næstu fjögur árin mun félagið halda áfram að efla verkefnið enn frekar og fjölga skólunum í samstarfi við ráðuneytið og íslensku UNESCO-nefndina.
Meginmarkmið samningsins eru:
- að styðja við innleiðingu á helstu þemum UNESCO-skóla: alþjóðasamvinnu, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin, frið og mannréttindi á leikskóla-, grunnskóla og framhaldsskólastigi;
- að styðja við framgang aðgerðar 8 í menntastefnu stjórnvalda, Raddir unga fólksins – virkt nemendalýðræði á öllum skólastigum;
- að styðja við stefnu um Barnvænt Ísland og
- að efla lýðræðis- og mannréttindamenntun.