Trölli.is frétti af því að Selvík ehf, félag á vegum Róberts Guðfinnssonar hafi verið að segja upp starfsmönnum.
Selvík ehf og skyld félög hafa á undanförnum árum verið í miklum og kostnaðarsömum framkvæmdum á Siglufirði. Meðal þess sem mest hefur borið á upp á síðkastið má nefna lúxus hótelið Sigló hótel og nýjan stórglæsilegan 9 holu golfvöll í Hólsdal, fyrir utan Rauðku húsin sem fyrir löngu eru orðin vel þekkt kennileiti á Siglufirði, svo eitthvað sé nefnt.
Trölli.is náði tali af Róbert þar sem hann var staddur á viðskiptaferðalagi erlendis og spurði hvort að þetta þýddi breytingar á stefnu félaga á vegum hans.
“Á síðustu tólf árum höfum við staðið að viðamiklum fjárfestingum á Siglufirði. Það hefur verið fjárfest fyrir allmarga milljarða í uppbyggingu í samfélaginu. Við lítum svo á að nú sé tími til að hægja á og vinna úr því sem komið er. Ég hef orðið var við áhyggjur af því hvað starfsemi á okkar vegum sé orðin fyrirferðamikil í litlu samfélagi. Með því að við hægjum á þá hljóta að opnast tækifæri fyrir aðra að taka við boltanum og gera betur” sagði Róbert í stuttu spjalli.
Því er við að bæta að félag í eigu Róberts hefur lagt fram erindi dagsett 24. júlí 2018 til skipulags- og umhverfisnefndar þar sem Róbert Guðfinnsson f.h. Ýmis fasteignafélags skilar inn lóðum sem félagið hefur fengið úthlutað við Eyrarflöt 7-9, 11-13 og 14-20.
Frétt: Gunnar Smári Helgason
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir