Sjana Rut er tónlistar- og listakona.

Undanfarin 2 ár hefur hún unnið að umfangsmiklu verkefni sem er tvískipt stórplata “Broken/Unbreakable” og fjallar um kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir sem barn, af hálfu náins ættingja annars vegar og einnig af hálfu starfsmanns Barnaverndar síðar á lífsleiðinni. 

Sjana Rut segir:

„Í raun er fólk að fá að fylgjast með bataferli mínu nánast frá upphafi.

Þann 25.nóvember 2021 gaf ég út fyrri hluta plötunnar, Broken, og þann 1. júlí 2022 kom síðari hlutinn, Unbreakable út.

Í kjölfar útgáfu Unbreakable fékk ég ítarlega umfjöllun á Vísi um verkefnið.

Platan fékk einnig umfjallanir erlendis í kjölfar útgáfu. Sjá meira: https://www.sjanarut.com/press

Broken var einnig valin Plata vikunnar á Rás 2 fyrr á síðasta ári.

Á Broken eru 17 lög og er hún að mestu samin frá mínu sjónarhorni sem barn og þegar ég er farin að átta mig á hlutunum sem fullorðin. Sú plata fjallar um þungann sem fylgir öllu þessu ferli, en endar þó í von.

Á Unbreakable má einnig finna 17 lög og einkennist sú plata af styrk og sjálfstrausti, og má finna mikinn töffaraskap og dass af húmor á henni, en hún er einnig berskjölduð á köflum.

Þetta er svokölluð concept/þema plata, það er saga í gangi allan tímann og hlustandinn ferðast með mér frá fortíðinni (Broken) fram til dagsins í dag (Unbreakable).

Ég málaði málverk við hvert lag á plötunni (ásamt plötuumslögunum) til að ná til sem flestra og svo að fólk nái betri tengingu við söguna.

Frá 4. – 14.nóvember í fyrra hélt ég listasýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem öll málverkin, 36 talsins, voru til sýnis.”


Mynd: af vefsíðu Sjönu Rutar: sjanarut.com