Til hamingju með daginn!

Mjög er talað um það hve Siglufjörður hafi breyst á síðustu árum og áratugum. Staðurinn hefur einhvern veginn gengið í endurnýjun lífdaga sem best kemur fram í því hve vinsæll hann er í augum ferðamanna. Skíðasvæðið stóra og góða, glæsileg hótel og margir góðir veitingastaðir, fjölbreytileg menningarafþreying stendur til boða og eflaust mætti áfram telja. Og ekki síst eru það jarðgöngin um Héðinsfjörð sem mörkuðu hin stóru tímamót í lífsskilyrðum okkar.

Eitt er það sem sjaldnar er nefnt sem mikilvægur þáttur í auknum lífsgæðum – en það eru snjóflóðavarnirnar sem hafa verið byggðar ofan bæjarins á síðustu 20 árum.

Mörgum er í fersku minni þegar 34 manneskjur fórust í snjóflóðum í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Þeir atburðir breyttu öllu í viðhorfum Íslendinga til snjóflóðavár og var þá ákveðið að framvegis yrði allt lagt í sölurnar til að tryggja öryggi fólks og mannvirkja á helstu snjóflóðastöðunum – að minnsta kosti.

Við munum allar rýmingarnar hér og álagið sem þeim fylgdi næstu árin á eftir meðan rannsóknir fóru fram og varnir voru skipulagðar.

Allir voru nú ekki á einu máli um þessi viðbrögð og aðgerðir. Í stað þess að eyða milljörðum í að umbreyta fjallinu í varnarskyni væri nær að byggja nýtt þorp á Saurbæjarási handan fjarðar – eða reisa tvö þrjú fjölbýlishús á miðri Eyrinni fyrir bæjarbúa eða einfaldlega kaupa upp allar húseignir undir fjallinu og gefa íbúunum kost á að flytja í burtu!

Þessi sjónarmið heyrðust þó ekki færu þau mjög hátt sem betur fór.

Með stjórnvaldsákvörðun hófu menn að byggja upp hinar mögnuðustu varnir – og nú búa flestir Siglfirðingar við þessar breyttu aðstæður og við getum dvalið nokkuð örugg á heimilum okkar a.m.k. hvað snjóflóð snertir. Og samtímis hefur bærinn okkar orðið betri og meira aðlaðandi!

Til að glöggva sig nánar á því hve umfangsmikið þetta allt hefur verið eru hér helstu tölurnar:

Þrír leiðigarðar eiga að beina snjóflóðum „rétta“ leið – alls 1.1 km langir.
Fimm þvergarðar, ríplar, eiga að stöðva snjóflóðin – alls 2.5 km langir.
Upptakastoðvirki eiga að hindra það að snjóflóð fari af stað – alls 4.6 km.
Auk þess hafa verið lagðir fjölbreytilegir göngustígar, 9 km langir, og tré gróðursett.
Allt þetta hefur kostað 4,6 milljarða kr. að núvirði.

Enn er nokkuð óunnið í fjallinu og það er sjálfsagt að krefjast þess að fræmkvæmdum ljúki sem fyrst. En engu að síður; mikið megum við vera þakklát!

Mynd: Árni Jónsson