Samtök Sveitarfélaga á Norðurlandi vestra taka heilsuhugar undir það sem fram kemur í frétt RÚV (sjá hér að neðan).

Í ályktunum þinga SSNV undanfarin misseri og í Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra hefur verið minnst á áhyggjur okkar af smærri þéttbýlisstöðum og ljósleiðaravæðingu þeirra. Það er næsta verkefni að tryggja að það gangi hratt og vel fyrir sig.

Við höfum séð í verkefninu um ljósleiðaravæðingu í dreifbýli að það er hægt að ná frábærum árangri með samstilltu átaki. Nú er bara að taka næstu skref og tryggja fjarskipti í þéttbýlinu líka.

“Búið er að loka stærstum hluta símstöðva sem tengja síma með fastlínu segir á vefsíðu RÚV. Vel hefur gengið að leggja ljósleiðara í sveitir landsins, en ljósleiðaravæðing þéttbýlisstaða á landsbyggðinni stendur út af.

Hættir að taka við nýskráningum heimasíma gegnum línu

Síminn tilkynnti í byrjun árs 2019 að hætt verði að bjóða upp á heimasíma gegnum fastlínu. Búið er að loka fyrir allar nýskráningar og vinna við að loka símstöðvum hófst í október 2020. Samhliða því er unnið að því markvisst að byggja upp ljósleiðarakerfi og farnetssamband á landinu öllu.

Í fjarskiptaáætlun Alþingis 2019 til 2033 segir að markmiðið sé að 99,9% heimila og fyrirtækja hafi aðgang að ljósleiðara. Í nýútkominni árskýrslu Fjarskiptastofu kemur fram að nær öll lögheimili og vinnustaðir á landinu hafi nú aðgang að farnetsþjónustu, og ljósleiðaravæðing sveitabæja miði vel. Aftur á móti hafi ljósleiðaravæðing þéttbýlisstaða á landsbyggðinni ekki gengið nógu vel.

Símstöðvum á landsbyggðinni lokað hverri af annarri

Sveitarfélög á landsbyggðinni hafa mörg hver áhyggjur af því hvað gerist þegar símstöðvar í smærri bæjarfélögum verða teknar úr sambandi, þar sem farnetstengingin þykir ekki eins örugg og ljósleiðarar.

Á sama tíma hefur Fjarskiptastofa ákveðið að alþjónustukvöð Mílu ehf, um að útvega lögheimilum og vinnustöðum tengingu við fjarskiptanet, verði ekki framlengd. Þjónustukvöð Mílu rennur út um áramótin. Það kemur þá í hlut Neyðarlínunnar að hafa umsjón með að slíkar tengingar verði settar upp, í samstarfi við önnur fjarskiptafyrirtæki eftir því sem kostur er. Slík tilvik hlaupa á einhverjum tugum á landinu öllu. 

Áætlað er að öllum símstöðvum verði lokað fyrir árslok 2023. Í svari frá Símanum við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að enn á eftir að loka stöðvum sem þjónusta tæplega 13 þúsund notendur, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Unnið sé náið með Neyðarlínunni þegar stöðvum er lokað, til að tryggja að nauðsynlegir innviðir séu fyrir hendi.

Um ástæður þess að kerfinu er lokað segir að það sé nú komið yfir líftíma sinn. Þjónusta frá birgja sé ekki lengur fyrir hendi og erfitt geti reynst að nálgast varahluti fyrir kerfið komi upp alvarlegar bilanir”.

Mynd/pixabay