Líðan nemenda í Menntaskólanum á Tröllaskaga og verðið á matnum í mötuneytinu var meðal þess sem nemendur ræddu á skólafundi.

Fundurinn er vettvangur nemenda til að ræða hagsmunamál sín og koma með ábendingar um breytingar sem þeir telja æskilegar. Að þessu sinni var, auk þess sem að framan var nefnt, rætt um nýnemadaginn fyrr í haust og skipulag í skólastofum, einkum í Brimnesi, þar sem uppröðun var breytt frá síðasta skólaári.

Fram komu hugmyndir um að setja borðtennis- og billjarðborð í skólastofu og nota þau til að læra við þegar leikir væru úti. Hugmynd var líka hreyft um færa leikjatölvur úr sal í lokuð rými.

Varðandi mötuneytið kom fram að nemendum finnst maturinn dýr og var varpað fram hugmyndum um hvernig hugsanlegt væri að lækka verðið, t.d. með fleiri miðum á matarkortunum sem viðskiptavinir mötuneytisins kaupa og greiða fyrirfram.

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla á að halda skólafund að minnsta kosti einu sinni á ári og eiga starfsmenn og fulltrúar nemenda rétt til setu þar samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Í MTR hefur verið litið svo á að allir nemendur ættu rétt til að sitja fundinn og þeir hafa verið hvattir til að gera það.

Sjálfsmatsteymi skólans fjallar um niðurstöður einstakra hópa og kynnir þær fyrir stjórnendum, skólanefnd og starfsmönnum skólans.

 

Mynd: Gísli Kristinsson