Sjósund í Hofsósi

Þó marga hrylli eflaust við tilhugsuninni um að demba sér í kaldan sjó verður sjósund sífellt vinsælla á Íslandi allan ársins hring enda hefur það frábær áhrif á líkama og sál.

Kostir sjósunds
Þeir sem stunda sjósund eru sammála um að sportið sé allra meina bót: Það styrki ónæmiskerfið, auki blóðflæði líkamans og vinni á liðverkjum. Fjölmargir sjósundkappar hafa með sjósundinu jafnvel losnað alfarið við langvinna verki.
Sjósund er íþrótt sem allir geta stundað sér til heilsubótar, enda spyr sjórinn hvorki um aldur, efni né líkamsform. Hörðustu sjósundkappar synda mörg hundruð metra á meðan aðrir láta sér nægja að dýfa sér ofan í nokkrar sekúndur í senn. Ekki skemmir svo fyrir að það er alveg ókeypis að synda í sjónum.
Auk áhrifa á líkamann hefur sundið jákvæð áhrif á andlega heilsu, enda dásamlegt að synda úti í náttúrunni í fersku lofti.

Hversu kaldur er sjórinn í raun?
Sjórinn byrjar að hlýna eftir veturinn í mars en um vetrartímann er sjávarhitinn frá 1,5° til 4°. Í júlí og ágúst verður sjórinn allt að 15° heitur og er þá hægt að busla í honum talsvert lengur en endranær.

Hvað þarf til að byrja?
Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
Farðu varlega til að byrja með
Óvanir ættu að vera skamma stund í sjónum, ekki lengur en 30 sekúndur til 1 mínútu. Það er algjör óþarfi að taka sundtök fyrstu ferðirnar, líkaminn hefur nóg að gera við að venjast álaginu af kuldanum. Það er alltaf ákveðin hætta á krampa, ofkælingu eða að missa andann. Hlustaðu á líkamann og ekki reyna að sigra sjóinn á einum degi.

Búnaður 
Sundföt eru nauðsyn og sé sjórinn mjög kaldur finnst mörgum gott að nota hanska og sjósundskó, en það er ekki nauðsynlegt fyrir þá sem eru að byrja að vori eða sumri. Auk þess er öryggisatriði vera með sundhettu eða húfu/eyrnaband í áberandi lit til að þú sjáist frá ströndinni.

Félagsskapur 
Aldrei synda ein/n í sjónum öryggisins vegna. Talist reglulega við á meðan á sundinu stendur til að fylgjast með líðan og meðvitund. Það heyrist nefnilega á mæli fólks hvort því sé orðið of kalt. Svo er einfaldlega miklu skemmtilegra að stunda sjósund með hópi vina en einn.

Næring 
Vertu alltaf búin/n að borða þegar haldið er út í sjóinn. Líkaminn þarf næga orku við sundið.

Staður 
Sjósund er nú stundað víða um land en meðal annars fara sundgarpar í sjóinn við flothöfnina við Hof á Akureyri, Gróttu á Seltjarnarnesi, frá Jaðarsbakkalaug á Akranesi og á Kjalarnesi við Klébergslaug.

Þekktasta aðstaða til sjósunds á landinu er líklega við Ylströndina í Nauthólsvík, þar sem til staðar er búningaaðstaða og heitur pottur til að hlýja sér eftir sundsprett. Auk þessara staða er raunar hægt að stunda sjósund hvar sem er á landinu, svo lengi sem fólk kynnir sér aðstæður áður en farið er í sjóinn og fer að öllu með varúð.

Frétt: N4 og Tímamót.is