Haraldur Björnsson, jafnan nefndur Halli Bó er með fjárbúskap “suður á firði”. Ein af ánum hans þar nefnist Snjólaug og er hún fjögurra vetra gömul.
Snjólaug hefur tvisvar borið einlembingum en þegar hún var sett í sónar í vor kom í ljós að hún var geld. Þar með var þó ekki öll sagan sögð.
Í göngum á Siglunesi þann 23. september síðastliðinn sáu gangnamenn Snjólaugu með nýborðið lamb. Ekki náðist að smala þeim með hópnum, því rollan tók sig út úr hópnum og var fyrirséð að ekki næðist til þeirra í það skiptið.
Þegar Siglunesið var gengið aftur laugardaginn 14. október misstu gangnamenn hana aftur frá sér með lambið, en í það skiptið voru rollur teknar sjóleiðina til Siglufjarðar á Örkinni hans Gunna. Var mannskapurinn alveg miður sín að þurfa að skilja rolluna og lambið eftir.
Í gærmorgun þegar komið var í fjárhúsið til gegninga var Snjólaug mætt þangað með litlu gimbrina sína og vildi nú fá að komast inn í fjárhús, hafði hún þá tekið sig til og gengið heim.
Mikil gleði er hjá Halla og fjölskyldu með að heimta þær mæðgur heilar á húfi til vetursetu í Bóhem, fjárhúsi Halla Bó.
Algjör Demantur
Mynd/Ólafía Guðmundsdóttir