Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu í Ólafsfjarðarprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Umsóknarfrestur var til miðnættis 16. mars 2023.

Ein umsókn barst frá sr. Stefaníu G. Steinsdóttur.

Biskup Íslands hefur nú staðfest ráðninguna.

Sr. Stefanía Steinsdóttir er fædd þann 2. maí árið 1980 og er fædd og uppalin á Akureyri.

Sr. Stefanía varð stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2001.

Hún tók BS gráðu í líftækni og hóf þá masters nám í auðlindafræði í Háskólanum á Akureyri.

Hún lauk BA gráðu í guðfræði árið 2015 og mag. theol. prófi frá Háskóla Íslands í júní árið 2017.

Sr. Stefanía var æskulýðsleiðtogi í Neskirkju árin 2015-2017 áður en hún vígðist til prestsþjónustu í Glerárprestakalli í ágúst árið 2017.

Þá hefur hún verið í afleysingu í Akureyrarkirkju og nú síðast í Ólafsfjarðarkirkju.

Sr. Stefanía er í sambúð með Sólveigu Helgadóttur markþjálfa og eru börn Stefaníu fjögur Guðrún Linda, Hákon Valur, Andrea og Dagur Valur.