Sýning verður opnuð 17. júní á ljósmyndasögusafninu, SagaFotografica, á Siglufirði eins og hefð er orðin
fyrir.

Í sumar verða þar á veggjum verk tveggja ljósmyndara; annars vegar myndir Ragnars Axelssonar frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum, hins vegar verk Jónu Þorvaldsdóttur. Fimm stórar Grænlandsmyndir Ragnar verða til sýnis á Siglufirði, auk nokkurra minni úr safni
hjónanna Baldvins Einarssonar og Ingibjargar Sigurjónsdóttur, stofnenda SagaFotografica. Þar er um að ræða myndir Ragnars frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi.

Ragnar þarf ekki að kynna fyrir lesendum Morgunblaðsins enda hafa myndir hans prýtt síður blaðsins í áratugi. Ljósmyndir hans hafa verið á sýningum víða um heim, auk þess sem komið hafa út nokkrar bækur með myndum Ragnars.

Jóna Þorvaldsdóttir er þekkt fyrir að nota sígildar ljósmyndunaraðferðir sem voru vinsælar á upphafs-tímum ljósmyndunar, við gerð verka sinna. „Ég legg mikið upp úr handverkinu í myndunum mínum og nýt þess að dvelja löngum stundum í myrkraherberginu. Þar læt ég hugann reika og gef ímyndunaraflinu lausan tauminn,“ segir Jóna.

„Oft koma myndirnar allt öðruvísi út en ég hafði áætlað sem gerir þetta ljósmyndaferli bara meira spennandi enda verður þá hver og ein framköllun einstök. Flestar þeirra mynda sem mér þykir vænst um hafa orðið til þegar ég hef náð að fylgja innsæinu og ekki ákveðið of mikið fyrirfram hvernig myndirnar ættu að vera. Ég geri mér grein fyrir að það er nauðsynlegt að skipuleggja sig, sérstaklega þegar ferðast er með níðþunga gamla ljósmyndavél á þrífæti, en það er eins og það virki best fyrir mig að takast á við um fangsefnið eins og það kemur fyrir hverju sinni, láta hlutina gerast og vinna út frá því.“

Jóna hefur haldið fjölda sýninga hérlendis og erlendis og eru verk hennar í eigu fyrirtækja, safna og einstaklinga.

Texti: aðsendur