Þann 9. maí byrjaði Gestur Hansson á byggingu klifurturns ofan við Hlíðarrípil á Siglufirði. Turninn, sem er um 12 metra hár, er hönnun Gests, og hvíldi vinnan við bygginguna að stærstum hluta á höndum hans.
Burðarvirki turnsins er afar traust, gert úr rafmangsstaurum sem Rarik gaf til verksins. Undirstöður eru grafnar djúpt í jörðu með þar til gerðum þverstífum og öllu tilheyrandi, þannig að turninn er mjög traustur og stöðugur. Björgunarsveitin keypti svo efni til samsetningar og í klæðningu.
Öll vinna við bygginguna var unnin í sjálfboðavinnu.
Nú er turninn kominn í notkun sem sig-turn, en í framtíðinni verður einnig settur á hann klifurveggur. Turninn verður læstur þannig að óviðkomandi komast ekki upp í hann, og því ætti ekki að vera hætta á að krakkar eða aðrir slasi sig í turninum. Björgunarsveitin er eigandi turnsins og sér um að opna hann þegar æfingar eða aðrir viðburðir eru á dagskrá.
Hlíðarrípill er einn af þvergörðunum í sjóflóðavarnakerfi Siglufjarðar, en þvergarðarnir heita:
Hlíðarrípill, Hafnarrípill, Skriðurípill, Skálarrípill og Bakkarípill.
Orðið rípill merkir garður og fyrri hlutar nafnanna eru dregnir af nöfnum jarða eða öðrum örnefnum í grennd við garðana.
Í fundargerð 238. fundar Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar – 3. apríl 2019 segir meðal annars:
3. 1903068 – Umsókn um leyfi fyrir klifurturni
Lögð fram umsókn dagsett 21. mars 2019 þar sem Magnús Magnússon f.h. björgunarsveitarinnar Stráka óskar eftir leyfi til að reisa klifurturn ofan við Hlíðarrípil á Siglufirði í samræmi við meðfylgjandi teikningar.
Erindi samþykkt en staðsetning skal vera í samráði við tæknideild. Nefndin bendir einnig á að ekki verður hægt að nýta turninn yfir vetrarmánuðina þar sem um snjóflóðahættusvæði er að ræða.
Hér má sjá yfirlitsmynd af varnargörðunum ofan við Siglufjörð: