Sunnudaginn 2. sept. 2018 kl. 14.30 – 15.30 verður Rósa Kristín Júlíusdóttir með erindi í Sunnudagskaffi með skapandi fólki sem ber yfirskriftina Samvinnulistsköpun.

Rósa Kristín Júlíusdóttir lærði myndlist á Ítalíu og útskrifaðist úr málunardeild frá Listaakademíunni í Bologna árið 1974. Hún kenndi við Myndlistaskólann á Akureyri, var stundakennari við Listaháskóla Íslands og var dósent í myndlistakennslu við Háskólann á Akureyri þar til hún lét af störfum fyrir þremur árum. Rósa Kristín hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.

Ég kýs að kalla erindið Samvinnulistsköpun (e. collaborative art practice) en það er fyrirbæri sem hefur lengi vakið áhuga minn og má segja að ég hafi verið viðloða eða tekið þátt í slíku um tíma. Samvinnulistsköpun á sér stað þegar tveir eða fleiri vinna saman sem einn listamaður að sama verki. Slík samvinna þróast í takt við verkið og tilheyrir það á endanum hvorum eða hverjum um sig til jafns. Sýnileg einkenni samvinnunnar eru yfirleitt ekki til staðar og verkið gæti því allt eins verið gert af einum listamanni. Saga samvinnulistsköpunar er löng og ég ætla að rekja þessa sögu að einhverju leyti með því að tala um nokkur vel þekkt listamanna pör frá upphafi síðustu aldar sem og önnur sem starfa í dag.

Myndirnar í viðburðinum eru samvinnuverkefni Rósu Kristínar og Karls Guðmundssonar.

Að erindi loknu er boðið uppá kaffi og meðlæti og eru allir velkomnir.
Uppbyggingasjóður/Eyþings, Fjallabyggð, Egilssíld og Samfélagssjóður Siglufjarðar styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

 

Frétt og mynd: Sjá viðburð