Að vera brottfluttur innfæddur “útlenskur” Siglfirðingur er ekki alltaf svo létt, sterk heimþrá er mikið tengd yndislegum barnæskuárum í fallegu og sérstöku umhverfi sem auðvitað er ekki hægt að endurlifa en gaman að minnast og það eitt dregur fram allskyns hugsanir.

Það sem ég fór frá á unglingsárunum er svo allt öðruvísi en það sem ég kem í heimsókn til í sumarleyfisferðum mínum í fjörðinn fagra.

Um daginn heyrið ég spjall við æskuvin minn “Jóa Budda” Jóhann Sigurjónsson í útvarpsþætti hér á trölli.is. Hann var að segja að það sé alveg furðulegt hversu oft hann hitti Siglfirðinga og fólk sem tengist sögu fjarðarins á hinum ólíklegustu stöðum á sínum ferðalögum í starfi sínu út um alla heim.

Ég hef svo oft lent í þessu sjálfur að sú tilfinning sem hefur gripið mig oft er að við Siglfirðingar séum eins og “vírus” og þeir hafa á frekar stuttum tíma dreift sér út um allt land og allan heim.

Af hverju?

Spyr ég sjálfa mig og ég sé sama þráð í minni eigin sögu sem ég held að ég deili með mörgum öðrum brottfluttum og “tilbakafluttum”.

Að geta séð sinn eigin fæðingarstað með augum útlendings er eiginleiki sem kemur hægt og rólega með árunum sem þú ert í burtu og í því ferli geta komið upp ný vandamál eins og að ég sé t.d. að ímynda mér að ég geti skipt yfir í norðlenskan málhreim þegar ég kem í gegnum Strákagöngin og þar með passað betur inn í samfélagið sem ég er hluti af og samt ekki.

Kemur mín ævintýraþrá og löngun til þess að skoða heiminn frá einangrun og vegleysi æskuáranna?

Einangrun sem ekki var brotin í rauninni fyrr en Héðinsfjarðargöngin komu. Skarðsvegurinn og tilkoma Strákagagna leystu ekki mikið.

Kemur hún kannski líka frá þeirri staðreynd að heimurinn kom til okkar í áratugi með tækni, fréttir um heiminn  og “nýmodigheter”  gegnum áhuga útlendinga á nálægð Siglufjarðar við auðæfi hafsins á Grímseyjarsundi ?

Og þá var líka Sigló nafli alheimsins lengi vel og maður sá allan heiminn í rauninni  án þess að þurfa að fara úr bænum.

Ég hef búið í Gautaborg í nær 30 ár, hún er enn stærsta hafnarborg Skandinavíu og þessi borg er líka byggð af útlendingum og hér blandast allt, hugmyndir, tækni, ástarsögur og framtíðardraumar, sumir koma og fara og aðrir skapa sér og sýnum nýja tilveru á nýjum stað.

Þetta er náttúrulögmál í hafnarborgum.

Svo var það með Siglufjörð líka og þessi bær óx hratt og dró til sín allskyns fólk, fólk sem hafði séð heiminn og þar af leiðandi hlýtur það eitt að hafa vakið upp ævintýraþrá í ungum Siglfirðingum.
Þarna bak við þennan lokaða þrönga fjallahring sem bara hefur eina átt (Hánorður) var örugglega til eitthvað stórt og áhugavert.

Náttúruhamfarir!

Það sem síðan hrakti flesta í burtu var auðvitað hvarf síldarinnar og mér hefur alltaf fundist það einkennilegt að það er sjaldan eða aldrei  rætt um þetta sem náttúruhamfarir í líkingu við eldgosið í Vestmannaeyjum ???

Einkennilegt!

Því áhrif síldarhvarfsins hafði nefnilega ótrúlega langvarandi áhrif á líf fólks á Siglufirði og það ástand sem ríkti á staðnum þegar ég í gegnum það eitt að vilja komast í burtu og fara í menntaskóla sem var langt í burtu var einmitt það sem varð til þess að ÉG og margir aðrir aldrei áttum afturkvæmt.

Til að vinna við hvað……?

Það sem ég fór frá er svo allt öðruvísi en það sem ég sé og kem til í dag.

Í greinarséríu sem ég skrifaði í fyrra má sjá margar myndir um hvernig þetta leit út þegar ég yfirgaf minn ástkæra fæðingarstað. Kannski ekki svo skrítið að manni langaði að fara og eftir menntaskólaárin var ástandið eins, ef ekki verra.

sjá grein hér:

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

Ástandi á Sigló var ekki beinlínis glæsilegt á sínum tíma.

 

Ég hef samt alltaf verið alveg svakalega mikil Siglfirðingur hvar svo sem ég hef búið í heiminum, man að ég gat orðið mjög reiður út í vini sem á þeim tíma sem umræðan um Héðinsfjarðargöngin var heit. Brást hart við orðum eins og: ” af hverju að vera að byggja rándýr göng fyrir örfáar hræður ? ”

Þá hélt ég langa fyrirlestra um sögu Siglufjarðar og sagði þessu fólki að éta skít með því að benda á að í áratugi hafi um og yfir 20 prósent af útflutningstekjum þjóðarinnar komið frá þessum eina stað og að við ættum þetta svo sannarlega inni hjá “Hinni þjóðinni” sem býr á suðvesturhorni þessarar eyju.

Þessi hugsunarháttur virðist enn vera við líði hjá þessu eigingjarna fólki sem kallar sig Íslendinga en er samt aldrei með hagsmuni landsbyggðarinnar í huga.

Og þannig er það líka með þjóðarstolt og þjóðarrembing að það fyrirbæri minkar með árunum líka, verður einhvern veginn ekki mikilvægt lengur og ég held að ég ætti að senda reikning í Íslenska sendiráðið fyrir yfir 100.000 klukkutíma sem ég hef eytt í að markaðssetja land og þjóð hér síðustu 30 árinn í Sverige.

En ég hef reynt eftir bestu getu að ala upp strákana mína og kenna þeim íslensku og fræða þá um land og sögu Íslands. Það hefur nú gengið “sí  där……”

Eitt sumarið fór ég með þá á Þingvelli í ógeðslegu Íslensku roki og rigningu, það hreinlega rigndi neðan frá akkúrat þennan dag.

Þeim leiddist að ég var alltaf af stoppa og taka myndir en þeir voru 12 og 8 ára og voru mest uppteknir við að spila Gameboy spil í aftursætinu á bílnum.

Ég legg bílnum ofan við Almannagjá og fræði drengina um að þetta sé heilagasti staður Íslands, hér voru víkingarnir með þing og svoleiðis og þeir voru mátulega hrifnir af þessari sögu.

Sá yngri kíkir snöggt upp úr gameboy spilamennskunni og segir: ” Pabbi…..sko farðu bara út og taktu mynd af þessu…..”

Sem stoltur og ábyrgur Íslenskur faðir dró ég þá út úr bílnum og niður í Almannagjá, þeir stóðu þarna blautir og kaldir og ég reyndi að vera svolítið kennaralegur og sagði: ” Sko strákar sjáið þið hér….þessi klettaveggur er á leiðinni til Ameríku og hin er á ferð til Evrópu…..ha, merkilegt, Eller ?

Litli skíturinn réttir upp hendina eins og við værum í kennslustofu og spyr: “Hvenær ?

Ha hvenær hvað ?  Hvenær fer þessi veggur til Ameríku ?

Svo varð bara pirringur og vitleysa úr þessu þarna í kuldanum og rigningunni og ég gafst upp og segi þeim að drulla sér til baka í bílinn.

Geng á eftir þeim hugsandi um hvað þetta var mislukkað hjá mér allt saman þegar ég heyri þann eldri segja á sænsku við bróður sinn: “skil ekki af hverju hann er að draga okkur ofan í þennan helvítis SKURÐ !”

Ég náttúrulega missi mig gjörsamlega og bendi þeim sko á að þetta sé nú ekki neinn helv…skurður, þetta er GJÁ og heilagur staður……. eins og þeir viti muninn á skurði og gjá….

Guð minn almáttugur börnin mín eru orðnir sænskir hálfvitar hugsa ég í reiði minni og vonbrigðum… þetta átti sko alls ekki að verða svona……..

en svo hugsaði ég: já, já en það mikilvægasta er að þeir verði nú almennilegar manneskjur og það eru þeir í dag.

Og þeir eru stoltir yfir uppruna sínum og báðir eru svakalega miklir Siglfirðingar vilja alltaf miklu frekar eyða sínum tíma á Sigló og nágrenni en í Reykjavík.

 

Stoltir Íslensk/sænskir Siglfirðingar. Sölvi Þór Jónsson og Pétur Friðrik Jónsson.

 

Lifið heil
Kær kveðja

Nonni Björgvins

Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson.
Ljósmynd í eigu Ljósmyndasafns Siglufjarðar er tekin af Steingrími Kristinssyni.