Útvarp Ísland!
Nú verða sagðar Clickbait-fréttir dagsins og þær fjalla allar um það sama og í gær.
AKKÚRAT EKKI NEITT!

Þannig að þú lesandi góður ert í rauninni ekki að missa af neinu, en samt að eyða tíma þínum í að svala forvitni þinni á einhvern óútskýranlegan máta.

Á feisbúkk finnst mér allra best,
að fyrirfinnast á daginn,
það þarf ekki að þykja best,
en þannig er nú aginn.
Í staðinn fyrir að taka til,
eða tökum sem dæmi skúra,
get ég hugsað hér um bil,
um heilsu- og matarkúra.
Og, í staðinn fyrir að fara út,
fer ég inn að lúra,
og fótósjoppa sjálfan mig
í sunnudagsgöngutúra.”

(Höfundur óþekktur)

(Þessu skemmtilega ljóði var deilt til pistlahöfundar nýlega og eins og allt of oft gerist, þá fylgdi ekki höfundarnafnið með eða upplýsingar um hvaðan þetta kom upprunalega.)

Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Misskiljið mig rétt, pistlahöfundur er ákafur notandi af samfélagsmiðlum og eins og flestum öðrum finnst mér skemmtilegt að geta notfært mér góðu hliðarnar á þessu freka nýlega fyrirbæri í mannkynssögunni. Þ.e.a.s. möguleikinn til að geta verið í sambandi við vini og ættingja út um allan heim…. ókeypis og svo getur maður líka komið hugsunum/skoðunum/áhugamálum sínum á framfæri og það er eitthvað sem var ekki öllum gefið hér áður fyrr.

En þegar við höldum að eitthvað sé ókeypis þá eykst viljinn til að taka þátt og við erum eitthvað svo einfaldar vitsmunaveru að við hreinlega viljum ekki sjá 👀 að sumt er EKKI beinlínis ókeypis.

Þessi pistlafyrirsögn höfundar er ekki lokkandi lygatitill.
Nei, þessi orð eru skrifuð af fúlustu alvöru og reyndar af umhyggju fyrir bæði sjálfum mér sem og öðrum sem nenna að lesa.
Því það er augljóst fyrir mér og greinilega mörgum öðrum að samfélagsmiðlar skapa…

… LESLETI

Hver framleiddi upprunalega og lagði vinnutíma í það og hvaðan kemur það sem við deilum daglega og færum áfram til annarra?
Allt þetta sem okkur finnst persónulega áhugavert og viljum svo gjarnan að aðrir taki til sín?

Erum við ósjálfrátt í vinnu við að ganga í Clickbait gildur daglega og þar með styrkja “fréttasíður” sem fá ókeypis auglýsingatekjur fyrir annarra manna vinnu?

Margir vinir mínir eru stundum að ögra manni með því að tékka á því hverjir nenna að lesa það sem birtist á Fésinu þeirra með því að skrifa skrítna Clickbait-titla, oftast án ljósmyndar og síðan langan texta þar sem einungis með því að lesa til enda kemur fram hvað viðkomandi er að meina með þessu langa bulli og þessir pistlar enda oft á hálfhótunum um að segja upp vinskap við alla sem ekki svara með skrifuðum orðum sem sanna að lesandi hafi nú örugglega skilið boðskapinn.

Launin fyrir að vera stuttorður hér áður fyrr var lægri símareikningur. Óskýr ljósmynd: Jón Ólafur Björgvinsson.
Skilti sem pabbi hengdi upp við símann í denn.

Þessi lesleti hefur skapast upp úr samkeppni á milli “alvöru fjölmiðla sem framleiða alvöru fréttir” og vélmenna sem ryksuga netið og birta síðan stuttu hliðina á málinu og kannski undir öðrum meira spennandi Clickbait-titli.
Endursagðar ókeypis fréttir eru í dag að gera út af við hefðbundna fjölmiðla. Sem hafa einnig það mikilvæga hlutverk að vera frjálsir og óháðir lýðræðisverðir og eiga að sjá til þess að grafa fram sannleikann um allt það undarlega sem fer fram í ósýnilegum skuggaheimi í okkar annars á yfirborðinu fallega samfélagi.

Það alvarlega er að sumir “svokallaðir fjölmiðlar” standa vart undir nafni, vegna þess að þeir framleiða næstum EKKERT sjálfir með eigin blaðamennsku, allt er endurbirt og stytt og hent út í netheima sem ný frétt.

Oft virðist manni til og með fréttin hafa farið beint í loftið úr Google-translate.

Við netneytendur erum eitthvað svo einfaldir kúnnar að við erum allt í einu undir gríðarlegu álagi. Við að reyna að komast yfir allar þessar endursögðu titlabreyttu fréttir að við svitnum á fingrunum og svo ofan á allt bætast við skoðanir vina okkar sem deila þessum sömu fréttum í ólíkum eigin túlkuðum gjafa pökkum.

Til viðbótar kemur síðan skyldumæting í að setja👍 LIKE á krúttlega barna, hunda og kattarmyndir sem birtast í gríð og erg líka…
… og ekki viljum við móðga vini okkar sem eru í vinnunni eða heima hjá sér að telja LIKE-IN sín… og ofan á allt bætast við allar duldar auglýsingar sem fljóta með í þessu óendanlega upplýsingaflæði.

Auglýsingar sem manni hreinlega bregður við…. því það er eins og að tölvan mín og netið viti að ég var að HUGSA um að kaupa mér nýja ryksugu…🤔 hmmm…..

Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson. Skilti á svölum pistlahöfundar.

Lesletin sýnir sig líka í því að margir eru greinilega að reyna að missa nú ekki af neinu og koma upp um sjálfan sig og sína eigin lesleti með skrítnum skrifum á röngum stað eða byrja strax að spyrja út frá ljósmyndinni sem fylgdi með innlegginu, nenna greinilega ekki einu sinni að opna viðhengið sem vísað er í og byrja strax í lesleti sinni að spyrja…

Dæmi:

🤔 Maðurinn á myndinni er nefndur á nafn í augljósum EKKI Clickbait pistla titli. 😏 ATH. Takið einnig eftir texta undir fyrirsögn.

Lesletin hjá sumum nær einnig pistlahöfundi gegnum samtöl og skrítnar kvartanir um að pistlar og smásögur séu of langar og hefur höfundur fengið til sín áskoranir um að fara á námskeið í að skrifa t.d. ÖRSÖGUR…. ???

Takk, en nei takk, ég mun ALDREI skrifa sögur eftir pöntunum eða takmarka orðafjölda smásögunnar eða texta sem fylgir myndsögusyrpum að lesleti þessa kvartandi leshóps og undirritaður hefur vinsamlega sagt við það fólk:
Pistlar og sögur eru ekki fréttir og að mínar lengstu smásögur eru oftast hámark 4-6 bls. af vélrituðum A4 síðum og það getur varla talist langt ef það hefði birst í prentuðu formi.

Jafnvel þarna finnst alnetsháðum lesletingjum að höfundar eigi að aðlaga sig að þeirra lesgetu og að nýjum frásagna stíl heimsins.

Þ.e.a.s. helst bara eina mynd og stutta Clickbait-fyrirsögn sem lýgur allri sögunni í einni setningu.

Það sem er mun hættulegra er að margir deila “Clickbait fréttum” án þess að lesa innihald viðhengis og hafa ekki hugmynd um að þeir séu kannski að taka þátt í falsfrétta útbreiðslu eða senda áfram hatursáróður um t.d. vissa persónu eða minnihlutahópa. Stundum í formi til sýnis fyndna teiknimynda með tvíræðri meiningu.

Síðan er það einnig merkilegt fyrirbæri að þegar “alvöru fjölmiðlar” gera fréttir úr staðhæfingum, (sönnum eða fölskum) sem almenningur slengir úr sér á samfélagsmiðlum að allt í einu getur “götuslúður” órannsakað orðið sannleikur?

Þetta var í “alvöru fréttum” og þá er þetta orðið satt og síðan er rifist um hver ber ábyrgð á sögðum/skrifuðum orðum sem líklega hefðu aldrei verið sögð “face to face” úti á götu.

En á netinu virðist allt vera leyfilegt og ÓK.

Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson. Skilti við svalatröppur pistlahöfundar.

Já, pistlahöfundi líður oft eins og að sumir hagi sér eins og stafræn ábyrgðarlaus smábörn, sem halda að samfélagsmiðlar séu þessi hlaðna skemmtilega leikfangabyssa sem allir óskuðu sér í jólagjöf frá ömmu sinni. Það er allt í einu leyfilegt að skjóta á allt og alla í fölsku skjóli tjáningarfrelsis og nafnleyndar. Eins og skiltið á myndinni varar við, þá þarft þú ekkert að óttast harmlausa hundinn sem nágranni minn á, en hér er gefið í skyn að eigandinn gæti verið frekar hættulegur.

Samfélagsmiðla er hægt að nota sem vopn líka eða sem grimman ósýnilegan hund sem geltir fyrir mann á alla og allt sem manni mislíkar við og það er alvarlegt að nær daglega er einhver alsaklaus persóna dæmd og hengd án dóms og laga upp í stafræna ljósastaura út um allan heim.

ALLT! Er efst á stuttum lista yfir hvað getur mögulega móðgað almenning í Svíþjóð.

Listinn yfir ALLT sem fólki finnst RÉTT eða RANGT er óendanlegur og skoðanir eru eins og rassgöt og það eru allir með minnst eitt stykki.

En við verðum að muna að VIÐ erum í rauninni öll STAFRÆN KORNABÖRN og okkur virðist ekki vera treystandi fyrir þessu nýja samskiptaleikfangi sem við fengum “ókeypis” í fallega innpakkaðri jólagjöf frá velviljuðum milljarðagróða alheimsfyrirtækjum.

Hvorki alnetið eða hjólið var fundið upp á Íslandi og í litlum samfélögum þar sem erfitt er að dylja hverjir eiga t.d. sök eða sakleysi í dómsmálum eða í óstaðfestum slúður fréttum verðum við að vera mjög svo varkár í að taka þátt í dómstóli netgötunnar.
Því ef við gerum of mikið af því þá erum við ekki lengur það réttláta alheimsfyrirmyndar lýðræðisþjóðfélag sem við viljum svo gjarnan þykjast vera. Allir verða að fá að vera saklausir hvort sem okkur líkar það eða ekki þangað til annað er sannað…. vissulega og vonandi í nútíma þarfa aðlöguðu laga og dómsmálakerfi.

Samfélagsmiðlar eru að mörgu leyti gott lýðræðisverkfæri og það hefur nú þegar sýnt sig að þessi tjáningar möguleiki almennings hefur oft komið að góðum notum og jafnvel breytt gamaldags karlrembu hugarfari sem og hreinlega breytt heiminum til hins betra, en pistlahöfundur hefur áhyggjur af skorti á lögum og reglum um hvernig við notum þetta verkfæri og spurningin er hvort að eigendum miðlana sé treystandi fyrir því að skapa réttlæti og jöfnuð fyrir alla og hvort að það eitt sé í rauninni eitthvað sjálfsagt markmið hjá þeim?

Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Því slæmu fréttirnar og sundrung og ádeila selja alltaf betur en glöðu góðu fréttirnar, neikvæðar fréttir virðast alltaf gefa meiri auglýsinga tekjur og virðast líka oftast lifa lengur og því miður er það staðreynd að sumir, konur jafnt sem karlar, saklausir sem sekir hafa oftar en ekki fengið harðari dóma á netinu en réttarfarskerfið myndi gefa þeim.

Lífstíðardómar hafa reyndar einhverskonar hámark í fangelsisárum, en dómar á starfrænum götum alnetsins eru “EILÍFÐAR DÓMAR” því EKKERT hverfur eða verður gert ósagt og ógert þar.

Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Forsíðu ljósmynd:
Skilti á svölum pistlahöfundar, ljósmyndari:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Heimildir:
Skoðanir pistlahöfundar út frá lestri ýmissa frétta og ekki frétta á alnetinu.

”Clickbait” – vad är det och varför är det dåligt?
Höfundur: Mikael Karlsson / Dagensanalys.se

Aðrar sögur, myndasyrpur og pistla eftir sama höfund finnur þú hér á trölli.is:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON