Fréttir berast af allmiklum svartfugladauða fyrir austan land.
Það mun einnig eiga við um Norðurland, til dæmis finnast dauðir svartfuglar á fjörum inn um Eyjafjörð.
Líklegast þykir að ætisskortur sé ástæða þessa fugladauða.

Raggi Ragg og Lisa Dombrowe sem tíðum fara um Héðinsfjörð hafa sagt þau tíðindi þaðan að mikið af svartfuglahræjum liggi í fjörum – og greinilegt að refum og hröfnum sé boðið til veislu. Taldi Raggi að 50-70 hræ hefðu verið þar sýnileg, aðallega langvía og álka.
Einnig fundu þau fimm haftyrðla frosna ofan í klakanum fram við Héðinsfjarðarvatn. Einum náði Lísa lifandi, bar með sér út í fjöru og sleppti á sjóinn.

Meðfylgjandi myndir af haftyrðlinum og úr drungalegri Héðinsfjarðarfjöru tók Lisa Dombrowe.