Ó.K. Gámaþjónusta ehf og Sveitarfélagið Skagafjörður hafa komist að samkomulagi um kaup sveitarfélagsins á öllu hlutafé í einkahlutafélaginu Flokku ehf.
Með kaupunum eignast Sveitarfélagið Skagafjörður eignir Flokku ehf en þar er m.a. um að ræða sorpmóttökustöð að Borgarteig 12 á Sauðárkróki og tilheyrandi vélar og tæki.
Eru kaupin liður í undirbúningi sveitarfélagsins fyrir fyrirhugað útboð á sorphirðu en gert er ráð fyrir að sorphirða í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi verði boðin út á árinu 2022 og að sorpmóttökustöðin að Borgarteig 12 verði hluti þeirra innviða og aðstöðu sem útboðið tekur til.
Samhliða var gerður leigusamningur á milli aðilanna þar sem sveitarfélagið leigir Ó.K. Gámaþjónustu fasteignina og tæki þar til niðurstaða fyrirhugaðs útboðs á sorphirðu liggur fyrir.
