Nú standa yfir sýningar í Héðinsfirði þar sem vöruhönnuðirnir Tinna Gunnarsdóttir og Silvía Sif Ólafsdóttir sýna verk undir berum himni. Sýningarnar eru öllum opnar og standa út september.
Laugardaginn 19. september býður Tinna Gunnarsdóttir til gönguferðar að sýningu sinni að Bakkakotstóftum. Lagt verður af stað frá útsýnisstaðnum í Héðinsfirði kl. 14.
Gangan að Bakkakoti tekur um 20 mínútur, er greið og auðveld um mýrlendi að mestu – mælt er með stígvélum eða góðum gönguskóm. Viðburðurinn með göngunni gæti tekið um eina og hálfa klukkustund.
Allir eru hjartanlega velkomnir.
Silvía Sif Ólafsdóttir sýnir rannsóknarverkefni sitt Útvíkkuð upplifun í landi Víkur, en það hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna í sumar sem leið. Þar tekur hún til skoðunar vídeómiðilinn sem er orðinn mikilvægt hönnunartól á tímum skjámenningar, enda aðgengi að honum opið og notað af stórum hluta samfélagsins. Í verkefninu kannar Silvía möguleika myndbandstækninnar í samhengi við íslenskt landslag með áherslu á það hvernig land erfist og hvernig landslag og líkamar eru bundnir saman í einhverskonar orsakasamhengi. Verkið birtist sem QR-kóði svo gott er að hafa snjallsíma meðferðis.
Tinna opnar tímabundna vinnustofu við tóftir Bakkakots í landi Möðruvalla þar sem hún sýnir verk í vinnslu sem tengjast doktorsverkefni hennar Snert á landslagi. Þungamiðja verkefnisins er tilviksrannsókn í Héðinsfirði þar sem unnið er með hönnunardrifið inngrip í formi hluta, tilfærslu á efni og mörkunar. Hægt verður að skyggnast inn i hönnunarferlið og mun sýningin taka breytingum eftir því sem tíminn líður.
Héðinsfjörður sem liggur yst á Tröllaskaga á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar hefur verið í eyði frá árinu 1951. Hann komst fyrst í vegasamband árið 2010 með opnun Héðinsfjarðarganga. Með þeim rofnaði einangrun fjarðarins og við tók nýtt tímabil í sögu þessa stórbrotna svæðis.