Líftæknifyrirtækið Genís á Siglufirði hefur lokið fyrsta áfanga af fjármögnun til að styðja við frekari vöxt félagsins og mun TFII, fagfjárfestasjóður í rekstri Íslenskra verðbréfa, koma inn í félagið sem nýr hluthafi. GAMMA var ráðgjafi Genís við fjármögnunina.

Genís hf. er líftæknifyrirtæki á Siglufirði sem hefur að undanförnu lagt áherslu á að markaðssetja fæðubótarefnið Benecta hér á landi og erlendis. Hið nýja fjármagn verður meðal annars nýtt til að ráðast í næstu skref í þróun félagsins. Unnið er að framleiðslu á lyfjabæti sem er í klínískum prófunum. Þá hefur félagið lokið dýratilraunum með ígræðsluefni fyrir bein. Einnig er félagið með í undirbúningi þróun á líftæknilyfi byggðu á þekkingargrunni félagsins.

„Það er afar ánægjulegt að hafa náð að ljúka þessu fjármögnunarverkefni með Genís með svo farsælum hætti. Það verður spennandi að fylgjast með þessu öfluga félagi á komandi árum,“ segir Valdimar Ármann forstjóri GAMMA.

„Við hjá Genís fögnum því að hafa fengið nýjan og öflugan hluthafa til liðs við okkur. Við horfum jákvæðum augum til framtíðar og stefnum nú ótrauð á frekari sókn inn á erlenda markaði,“ segir Róbert Guðfinnsson, stofnandi og stjórnarformaður Genís.

.

 

Texti: Aðsendur
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir