Komið verður á fót upplýsinga- og ráðgjafaþjónustu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess. Áætlað er að opnað verði fyrir þjónustuna strax í haust. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Guðlaugur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, undirrituðu í dag samning þessa efnis. Þjónustan er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum eldra fólks: Gott að eldast. Markmið aðgerðarinnar er að auðvelda aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf um hvað eina sem varðar heilabilun svo sem varðandi þjónustu og sérhæfðari ráðgjöf. Upplýsingar verða veittar í gegnum síma, netspjall eða á fjarfundi og verður þjónustan fólki að kostnaðarlausu.

Aðgerðaáætlunin var samþykkt þann 10. maí 2023 sem þingsályktun frá Alþingi. Henni er ætlað að vera leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildarstefnu sem feli í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru, að ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila verði skýr og að „gráum“ svæðum í þjónustu verði útrýmt. Áætluninni er skipt í fimm þætti og er virkni einn þeirra. Þjónustan sem Alzheimersamtökin mun veita fellur undir þann hluta áætlunarinnar.

Alzheimersamtökin starfa um land allt og vinna að hagsmunamálum fólks með heilabilunarsjúkdóma með stuðningi, ráðgjöf og fræðslu. Auk þess reka samtökin þrjár sérhæfðar dagdvalir/þjálfarnir og Seigluna sem er þjónustumiðstöð fyrir fólk sem skammt er gengið með sjúkdóm sinn og aðstandendur þess.

Sjá nánar: HÉR