Brian Callaghan var að senda frá sér afar persónulega og einlæga plötu sem nefnist Through the Storm.
Platan kemur út í dag á streymisveitum. Through the Storm á Spotify.
Brian Callaghan er hlustendum FM Trölla að góðu kunnur fyrir útvarpsþættina “The Brian Callaghan Radio Show” sem er á dagskrá á laugardögum á FM Trölla.
Efni plötunnar Through the Storm var samið á tímum mikilla breytinga í lífi Brians. Breytinga sem margir þekkja allt of vel af eigin raun. Hann stóð í erfiðum hjónaskilnaði, sem kom illa við ung börn þeirra.
Brian ákvað að semja lög og texta til að leita leiða til að komast í gegnum skilnaðinn. Platan fjallar um sársaukann við það að missa, en líka vonina um betri tíma.
Plötuna hljóðritaði Brian einn síns liðs, þar sem hann sér alfarið um söng og hljóðfæraleik, vegna þess að hann vildi túlka efnið á persónulegan og á köflum einmanalegan hátt.
Brian Callaghan vonar að platan snerti við öðrum sem glíma við svipaðar aðstæður í lífi sínu, í von um að efnið geti veitt von og huggun.