Dúettinn Huldumaður og víbrasjón sem skipaður er af Heklu Magnúsdóttur þeramínleikara og Sindra Frey Steinssyni gítarleikara mun leika úrval af sönglögum tónskáldsins Magnúsar Blöndal víðsvegar um landið í júní og júlí.

Spila Magnús Blöndal

Magnús Blöndal, sem er ef til vill þekktastur fyrir lagið Sveitin milli sanda og sem frumkvöðull í íslenskri raftónlist, samdi einnig fjölda fallegra sönglaga sem Hekla og Sindri túlka á nýjan hátt í tónleikaröðinni. Lögin, sem eru upphaflega samin í hefðbundnum stíl fyrir rödd og píanó, eru færð í rafmagnaðan búning.

Nafnið huldumaður og víbrasjón

Dúettinn Huldumaður og víbrasjón var stofnaður haustið 2020 í verkefnafæð heimsfaraldurs og sendi frá sér ábreiðu af laginu Hátíð fer að höndum ein jólin 2020. Nafnið er fengið frá samnefndu málverki Kjarvals sem sýnir huldumann umvafinn pastellituðum víbrandi árubylgjum. Hekla og Sindri hafa bæði komið víða við í íslensku tónlistarlífi og voru saman um árabil í sörfsveitinni Bárujárn og hafa þau í sitthvoru lagi komið að fjölda annarra verkefna. Þau hafa bæði numið við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Sérsmíðað hljóðfæri 

Auk hins dularfulla og angurværa þeramíns sem túlkar söngröddina og gítarsins sem sér að mestu um undirleik, koma einnig við sögu þverflauta og lúppufetill í dadaíska dúettinum Na no mani. Þá er bassahljóðgervli stýrt af Sindra í nokkrum lögum með heimasmíðuðum bassapedala á sama tíma og hann leikur undir á gítar. Bassaþrællinn sem fékk nafnið Fótgönguliði var sérsmíðaður fyrir tónleikaferðalagið.

Ókeypis inn – styrkur úr Tónlistarsjóði

Tónleikaröðin hefst þann 18. júní þar sem fyrsti tóninn verður sleginn í Mengi við Óðinsgötu í Reykjavík. Huldumaður og víbrasjón koma svo fram í Grindavík, Akranesvita, á Siglufirði, Akureyri, Stykkishólmi, Rifi, í Flatey og Reykjavík. Aðgangur er ókeypis nema í Mengi, en tónleikaröðin hlaut veglegan styrk úr Tónlistarsjóði og er eru því allir velkomnir án endurgjalds.

Dagskrá tónleikaraðarinnar er eftirfarandi:

18.6    21:00         Mengi                    Reykjavík

24.6    20:00        Aðal-Braut                Grindavík

27.6    16:00        Akranesviti                 Akranes

2.7    20:00        Þjóðlagasetrið                Siglufjörður

3.7    20:00        Gallerý Kaktus                Akureyri

10.7    16:00        Vatnasafnið                Stykkishólmur

10.7    20:00        Frystiklefinn                Rif

11.7    21:00        Hótel Flatey                Flatey

18.7    20:00        Bókabúðir Máls og Menningar    Reykjavík