Út er komin platan Þráðurinn hvíti, þar sem Helga Kvam píanóleikari og Þórhildur Örvarsdóttir flytja nýja tónlist eftir íslensk tónskáld.
Á plötunni eru lög eftir Jónas Sen, Sigurð Flosason, Harald V. Sveinbjörnsson, Kristjönu Stefánsdóttur, Helgu Kvam og Þórhildi Örvarsdóttur. Upptökustjóri var Haukur Pálmason.
Upptökur fóru fram í Akureyrarkirkju í júlíbyrjun árið 2020.
Platan er nú þegar aðgengileg á öllum helstu tónlistarveitum ásamt því að koma einnig út sem geisladiskur í nóvember 2020.
Helga og Þórhildur hafa í mörg ár starfað saman að fjölmörgum tónlistarverkefnum, stórum sem smáum og flutt tónleikadagskrár um allt land. Þær hafa sérstaklega einbeitt sér að íslenskri tónlist og ljóðum og t.d. sett saman dagskrár í tali og tónum um Huldu skáldkonu, Davíð Stefánsson, íslenska sönglagið og íslensk Maríuvers. Á þessum tíma hefur orðið til mjög náið samstarf við íslensk samtímatónskáld og voru pöntuð og frumflutt verk eða útsetningar á hverju ári síðastliðin 4 ár.
Þráðurinn hvíti er afrakstur hluta þeirrar vinnu og undirbúningur plötunnar var að hluta til unninn í vinnustofum Circolo Scandinavo í Róm árið 2019 og í listamannadvöl hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar árið 2020.
Verkefnið var styrkt af Tónlistarsjóði, Menningarsjóði FÍH.
Hér má hlýða á plötuna á Spotify:
https://open.spotify.com/album/6PU1joFxYOxy1v2nTRgpkm?si=hJG8MOBQRayXKYtXGeSCCA
Á myndinni frá vinstri til hægri; Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir
Ljósmyndari: Auðunn Níelsson/Aui ljósmyndari
Aðsent.