Vaxtarrými er átta vikna viðskiptahraðall með fókus á sjálfbærni, mat, vatn og orku þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið.  Viðskiptahraðallinn, sem er jafnframt fyrstur sinnar tegundar á Norðurlandi er fyrsta verkefni Norðanáttar sem eru regnhlífasamtök nýsköpunar og stóðu þau fyrir fræðslu, vinnustofum og tengja teymin við reynslumikla mentora víða úr atvinnulífinu. Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki, og samanstendur af viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum.

Lokaviðburður Vaxtarrýmis var haldinn hátíðlega föstudaginn 26. nóvember sl. á Akureyri. Átta nýsköpunarteymi kynntu stórglæsileg verkefni sín og var viðburðinum streymt á netinu en þeir sem mættu nutu veitinga í föstu og fljótandi formi. 

Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdarstjóri Eims, og Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps og verkefnastjóri NÍN stýrðu dagskrá. Hilda Jana Gísladóttir, formaður SSNE, fór með opnunarerindi ásamt Unni Valborgu Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóra SSNV.

Hér er hægt að horfa á upptöku frá lokahátíðinni. 
Þátttökuteymi Vaxtarrýmis 2021 (í röð eftir kynningum á viðburði):

Icelandic Eider – Árni Rúnar Örvarsson: Icelandic Eider sér um fullvinnslu æðardúns að Hraunum í Fljótum. Þau bjóða uppá æðardúnssængur og er sérstaða þeirra framleiðsla á smávörum og þróun útivistarvara.

Mýsilica – Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir: Mýsilica mun framleiða hágæða húðvörur unnar í Mývatnssveit, úr skiljuvatni við Bjarnarflag. Virka efnið í húðvörunum er náttúrulegur kísill, ásamt öðrum steinefnum sem fyrirfinnast í skiljuvatninu.

Íslandsþari ehf – Snæbjörn Sigurðarsson / Hafþór Jónsson: Íslandsþari hyggst nýta jarðhita til að vinna verðmætar afurðir úr stórþara sem vex í miklu magni við Norðurland. Verkefnið byggist á sjálfbærni, fullnýtingu og fullvinnslu hráefnisins í sátt við náttúruna. Uppbygging landvinnslu á Húsavík mun skapa um 80 ný og fjölbreytt störf.

Austan Vatna – Inga Dóra Þórarinsdóttir / Eduardo Montoya: Austan vatna hefur verið að þróa framleiðslu á Chimichurri steikarsósu og chorizo grillpylsum að argentískri hefð og ætla þau að nýta afurðir úr héraði til framleiðslu.

PlastGarðar – Garðar Finnsson: Hey!Rúlla ætlar að skapa hringrásahagkerfi landbúnaðaplasts innan Íslands þar sem margnota heyrúllupokar munu endast í allt að 15 ár og verða svo að fullu endurunnir í nýja poka.

Mýsköpun – Júlía Katrín Björke: Mývatns spirulina snýst um íslenska framleiðslu á fæðubótaefni. Tilraunaræktun á smáþörungunum spirulina er í fullum gangi til að þróa og besta framleiðslu á spirulina dufti sem fæðubótaefni og er verkefnið einn hlekkur á beinni nýtingu á jarðhita til matvælaframleiðslu.

Nægtarbrunnur Náttúrunnar – Þórólfur Sigurðsson / Sveinn Garðarsson: Nægtarbrunnur Náttúrunnar hefur það að markmiði að þróa og hefja framleiðslu nýrra drykkjuvara í Bárðardal, Suður-Þingeyjarsýslu. Þróaðar verða frumgerðir drykkjavara úr staðbundnu hráefni til framleiðslu grasöls og rabbabarafreyðivíns.

Ektafiskur ehf. – Elvar Reykjalín: Ektafiskur saltfiskframleiðandi framleiða saltsteina fyrir búfé úr afsalti sem er fullt af næringarefnum úr fiskinum.

Norðanátt byggir á hringrás árlegra viðburða þar sem frumkvöðlar fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, vaxa og ná lengra. Hringrásin samanstendur af lausnamóti, vinnusmiðju, viðskiptahraðli og fjárfestamóti. Næsti liður í hringrásinni er fjárfestamót sem verður haldið á Siglufirði í vor. Að Norðanátt koma Eimur, landshlutasamtökin SSNE og SSNV, Nýsköpun í Norðri, Hraðið og RATA. Styrktaraðili Norðanáttar 2021-2022 er Fallorka.

Skoða nánar á ssne.is