Veðurfar ársins 2023 var að mestu hagstætt. Það var hægviðrasamt, þurrt, snjólétt og illviðri tiltölulega fátíð. Árið var þó í svalara lagi ef miðað er við hitafar síðustu ára. Á landsvísu var hitinn 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Að tiltölu var kaldast á Norðurlandi en hlýrra suðvestanlands og við suðurströndina. Óvenjukalt var fram eftir janúarmánuði og aftur í mars. Júní var aftur á móti óvenju hlýr á Norður- og Austurlandi, víða sá hlýjasti frá upphafi mælinga í þeim landshlutum. Árið var tiltölulega þurrt og var úrkoma undir meðallagi um mest allt land. Það voru nokkur þurr tímabil á árinu, t.d. í mars og í júlí, en það rigndi líka hressilega inná milli. Það var óvenju þungbúið og blautt á sunnan- og vestanverðu landinu í maí og júní.

Veturinn 2022 til 2023 var óvenjulega kaldur á landinu öllu. Nær samfelld kuldatíð ríkti á landinu frá 7. desember til 19. janúar. Kuldatíðin var sérstaklega óvenjuleg á Suðvesturlandi og voru þessar 6 vikur t.d. þær köldustu í Reykjavík síðan 1918 (en þá var mikið kaldara). Á þessu tímabili var þrýstingur sérlega hár, vindur hægur og það var óvenju þurrt og bjart, sérstaklega suðvestanlands. Það var umhleypingasamt seinni hluta janúar og í febrúar, hlýrra og blautara. En í mars kólnaði aftur og önnur samfelld kuldatíð stóð yfir frá 6. til 28. mars. Að tiltölu var þá kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Það var óvenju þurrt og sólríkt á suðvesturlandi á þessu tímabili. Töluverður snjór var hins vegar um landið norðan- og austanvert. Mikill fjöldi snjóflóða féll á Austfjörðum í lok mars, þau stærstu í Neskaupstað og ollu þar miklu eignatjóni.

Vorið var tiltölulega hlýtt ef frá er talið vikulangt kuldakast í lok apríl. Það var þurrt og sólríkt norðanlands en úrkomusamt suðvestanlands. Maí var sérlega úrkomusamur og þungbúinn sunnan og vestan til og var mánuðurinn víða á meðal blautustu maímánaða frá upphafi mælinga. Nokkur slæm suðvestan- og sunnanhvassviðri gengu yfir landið seint í maí sem ollu töluverðum skemmdum á gróðri. Tré, runnar og annar gróður misstu lauf og létu á sjá langt fram eftir sumri.

Fyrstu tveir sumarmánuðirnir voru mjög ólíkir. Óvenjuleg hlýindi voru á Norður- og Austurlandi í júní. Þetta var hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri og Egilsstöðum (og víðar í þessum landshlutum). Á meðan var óvenju þungbúið og úrkomusamt á sunnan- og vestanverðu landinu. Í júlí voru aftur á móti norðan- og norðaustanáttir ríkjandi allan mánuðinn. Þá var kalt á Norður- og Austurlandi en hlýrra suðvestanlands. Það var óvenju þurrt og sólríkt á sunnan- og vestanverðu landinu og var þetta víða langþurrasti júlímánuður frá upphafi mælinga. Ágústmánuður var tiltölulega hlýr um meginhluta landsins, hægviðrasamur og þurr framan af. September var svalari og úrkomusamari.

Haustið var hægviðrasamt, snjólétt og veður almennt gott. Það var tiltölulega hlýtt sunnanlands en kaldara fyrir norðan.

Desember var svo tiltölulega kaldur, en hægviðrasamur og þurr.

Sjá nánar á vefsíðu Veðurstofu Íslands.