Mars var hlýr og tíð hagstæð segir á vefsíðu Veðurstofu Íslands. Óvenju hlýtt var á landinu dagana 17. til 19. og mældist hitinn víða hátt í 20 stig á Austurlandi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í mars var 2,3 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 1,7 stig, 1,7 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 1,5 stig og 2,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöðmeðalhiti °Cvik 1991-2020 °Cröðafvik 2011-2020 °C
Reykjavík2,31,230 til 311510,8
Stykkishólmur1,51,2291760,7
Bolungarvík0,71,224 til 251240,7
Grímsey1,01,2201480,6
Akureyri1,71,7181411,3
Egilsstaðir1,21,516670,9
Dalatangi2,81,611830,9
Teigarhorn2,51,2221490,7
Höfn í Hornaf.2,80,6
Stórhöfði3,00,8351450,5
Hveravellir-3,51,410571,0
Árnes1,21,2291420,8

Meðalhiti og vik (°C) í mars 2021

Mars var hlýr og hiti víðast hvar vel yfir meðallagi. Að tiltölu var hlýjast norðaustanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,8 stig á Eyjabökkum. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0.1 stig á Skagatá.

Hitavik sjálfvirkra stöðva í mars miðað við síðustu tíu ár (2011-2020).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Steinum undir Eyjafjöllum, 4,2 stig. Lægstur var hann á Þverfjalli -4,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -2,1 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,4 stig á Dalatanga þ. 18. Það er næsthæsti hiti sem mælst hefur á landinu í mars. Metið er 20,5 stig, sett á Kvískerjum í Öræfum þann 29. mars 2012. Óvenju hlýtt var á landinu dagana 17. til 19. og mældist hitinn víða hátt í 20 stig t.d. á Neskaupsstað (20,2 stig) , Kollaleiru í Reyðarfirði (19,6 stig), Eskifirði (19,6 stig) og Bakkagerði (19,3 stig).

Mest frost í mánuðinum mældist -23,5 stig á Setri þ. 27. Mest frost í byggð mældist -20,1 stig á Kálfhóli þ. 27.

Úrkoma

Úrkoma í Reykavík mældist 61,4 mm sem er 76% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 57,1 mm sem er 20% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 75,9 mm og 59,3 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 15, einum fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 10 daga mánaðarins, einum fleiri en í meðalári.

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 4, fimm færri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 12 sem er 4 dögum færri en að meðaltali 1991 til 2020.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 106,2 sem er 4,1 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 89,8, sem er 12 stundum fleiri en í meðalári.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,1 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hvassast var dagana 10. til 12. (norðanátt), dagana 21. og 22. (suðvestanátt) og þ. 26. (norðanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1005,0 hPa og er það 1,8 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1041,8 hPa á Fonti á Langanesi þ. 3. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 956,3 hPa á Dalatanga þ. 10.

Fyrstu þrír mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins 1,5 stig sem er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,2 stigum yfir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 22. til 23. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja -0,3 stig. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 35. sæti á lista 141 ára. Það hefur verið þurrt í Reykjavík það sem af er ári, úrkoman hefur verið um 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoma hefur verið um 15% umfram meðallag á Akureyri.

Veturinn (desember 2020 til mars 2021)

Veturinn 2020 til 2021 var nokkuð hagstæður. Sér í lagi suðvestanlands, þar var tiltölulega hlýtt, þurrt og óvenju snjólétt. Úrkomusamara var norðaustanlands en þar munar mestu um óvenju úrkomusaman desembermánuð. Illviðri voru fremur fátíð þennan veturinn.

Meðalhiti í Reykjavík í vetur var 1,6 stig og er það 0,9 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1991 til 2020, en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Veturinn var í 15. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871. Á Akureyri var meðalhitinn -0,4 stig sem er 0,1 stigi ofan meðallags áranna 1991 til 2020 en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var veturinn í 35. hlýjasta sæti frá upphafi mælinga.

Veturinn var þurr í Reykjavík. Úrkoma í Reykjavík mældist 213,2 mm sem er 60% af meðalúrkoma áranna 1991 til 2020. Síðast var álíka þurrt í Reykjavík veturinn 2010. Á Akureyri var veturinn aftur á móti óvenju úrkomusamur. Úrkoma mældist 397,0 mm sem er 75% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Þar munar mest um desemberúrkomuna sem er meira en helmingurinn af heildarúrkomu vetrarins eða 211,9 mm. Vetrarúrkoman hefur aðeins tvisvar sinnum verið meiri á Akureyri, það var veturinn í fyrra (2019 til 2020) og veturinn 1988 til 1989.

Veturinn var óvenju snjóléttur í Reykjavík. Alhvítir dagar í vetrarmánuðunum fjórum voru 9, 38 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar hafa ekki verið eins fáir yfir vetrarmánuðina frá því veturinn 1976 til 1977, þá voru þeir 5. Á Akureyri voru alhvítir dagar 59, 14 færri en að meðaltali 1991 til 2020.

Skjöl fyrir mars

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.