Jón Trausti Traustason bóndi, vitavörður og veðurathugunarmaður á Sauðanesi við Siglufjörð sendir Veðurstofunni mánaðarlega tíðaryfirlit yfir veðráttu mánaðarins.

Yfirlit yfir veðrið í janúar 2019 frá veðurstöðinni á Sauðanesvita.

Fyrstu 11 daga mánaðarins voru S. lægar áttir ráðandi. Úrkoma var lítil á þessum tíma en var í formi regns þegar hún var. Hvasst var með köflum í S.S.V. áttum með talsverðum rokum. Dagana þ. 12 til og með þ. 16. tóku N.A. lægar vindáttir yfir með köldu veðri.

Snjókoma og él voru fylgjandi og festi nokkurn snjó á þessu tímabili. Dagana 17. til 24. voru S. lægari vindar aftur á dagskrá með mildara veðri fyrri hluta þess tímabils en frysti aftur síðari hluta þess þó að landáttir væru.

Vindáttir urðu breytilegri um tíma eftir það en svo tóku ákveðnar N.A. áttir völdin síðustu fjóra daga mánaðarins með snjókomu eða éljum.

Mynd/Jón Trausti Traustason

Meðalhiti mánaðarins var + 1,15 stig og úrkoma mældist 38,6 mm.
Hæst komst hitinn í + 15,7 stig þ. 3. og lægst þ. 14. er hiti fór niður í – 6,8 stig.

Í heild séð telst þessi Janúar mánuður kaflaskiptur en skárri í heildina en í meðalári. Mánuðurinn var mildur eins og sést á meðalhita, rúmu stigi yfir frostmarki.

Snjólag var gefið fyrsta daginn og svo aftur ekki fyrr en þ. 13, utan þ. 11. er gránaði á jörð. Jarðlag var sent dagana þar á milli sem rök jörð. Mesta snjódýpi var síðustu tvo dagana og var meðaltal þess 30 sm.

Úrkoma var lítil heilt yfir í mánuðinum. Alls voru 6 dagar í mánuðinum þar sem engrar úrkomu varð vart. Meðalúrkoma per dag mánaðarins var 1,2 mm.

Mynd/Jón Trausti Traustason