Frá 7. mars 2020 hafa allar heimsóknir verið bannaðar á Hornbrekku að höfðu samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir.
Þar sem íbúar Hornbrekku eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Auk þess voru gerðar breytingar á skipulagi hjá starfsfólki og innanhús.
Frá 4. maí 2020 verða gerðar tilslakanir á heimsóknarbanni og verða heimsóknir leyfðar inn á Hornbrekku með ákveðnum takmörkunum.
Hjúkrunarforstjóri mun skipuleggja heimsóknir þannig að hver íbúi fái heimsókn einu sinni í viku frá nánasta ættingja 18 ára og eldri, og einungis verður einn ættingi í heimsókn á heimilinu á hverjum tíma.
Búið er að senda ættingjum bréf varðandi tilslakanir á heimsóknarbanni 4. maí 2020 og nánari skipulag verður sent til þeirra um miðja næstu viku. Þar kemur fram heimsóknartími, hvernig þeir eiga að bera sig að í heimsókninni, sóttvarnir og mikilvægi þess að koma alls ekki í heimsókn ef viðkomandi er í sóttkví, einangrun eða eru slappir.
Einnig eru ættingjar hvattir til að hlaða niður smitrakningarappi almannavarna fyrir heimsókn. Hafa þarf í huga að þó mikið hefur áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn og sýna þarf ýtrustu varkárni
Vonir eru bundnar við að heimsóknir verði rýmkaðar enn frekar í júní 2020 en hafa verður í huga að ef smit vegna COVID-19 aukast aftur, eða smit vegna annarra smitsjúkdóma. Munu tilslakanir á heimsóknarbanni ganga til baka og reglur verða hertar á ný.