Að fá kröfu um að borga toll fyrir að fá að taka á móti jólagjöfum er ekkert annað en fjárkúgun og ríkisrekinn dónaskapur, en þetta óréttlæti virðist ganga yfir marga Íslendinga heima á klakanum góða, sem og yfir þá sem búa á hinum Norðurlöndum. Og gildir þetta jafnt um jóla- afmælis- og fermingargjafir og fl. Ofan á allt bætast síðan við himinhá einokunar póstburðargjöld sem oft yfirstíga verðið á gjöfunum í pakkanum og jafnvel “tollskoðunargjald” frá Póstinum.

Hér í lokin er einnig nokkuð skondin texti frá tollinum um reglugerðir varðandi gjafir til Íslendinga frá útlöndum, sem minnir mest á Danska einokunar nýlendustefnu frá 18 öld með t.d. fáránlegum kröfum um að móttakandi gjafa verði að geta sýnt fram á tengsl við sendanda gjafa og að sá hinn sami hafi nú gilda ástæðu til að senda þessa tilefnislausu vinagjöf. Allir eru þar fyrir utan fyrir fram sekir, bæði gefandi og móttakandi.

Ótrúlegt en satt!

Nei, hættu nú alveg!
Hrökk út úr mér hér um daginn þegar ég fékk tölvupóst frá PostNord sem er sænsk stóra systir Íslands Pósts, um að mér bæri skylda til þess að borga 115 Skr. í tollgjöld af jólagjöf sem bróðir minn elskulegi sendi mér frá Íslandi. Í pakkanum voru tvær bækur sem hann borgaði virðisaukaskatt af í búðinni heima á Íslandi, sem nú reyndar á aðild að einhverjum einkennilegum EES tollasamningum.
Heitir þetta ekki tvísköttun á venjulegri Íslensku?

Í dag var ég síðan rændur aftur af þessu sama PostNord ríkisrekna fyrirtæki, þegar ég sendi jólagjafir til baka. Það kostaði nær jafnmikið að senda pakkann og það sem ég keypti og setti inn í jólapappír.

Innihaldið í jólapökkunum tveimur í bláa PostNord pakkanum á forsíðumyndinni, að meðtalinni reyktri Elg-pylsu og laufléttu jóla og áramótaskrauti, kostaði samanlagt 350 SKR. (5.050 ÍSK). Hins vegar kostaði þessi nauðaómerkilegi kassi 115 SKR og eru þá einhver póstburðargjöld innan Svíþjóðar innifalin í því og svo þurfti ég að sleikja frímerki upp á andvirði 210 SKR svo að pakkinn kæmist nú örugglega til Íslands. Samanlagður sendingakostnaður er því 325 SKR. (4.688 ÍSK.) fyrir pakka sem er langt undir 2 kg.

Tollareglugerðir hér í Svíþjóð segja að það sé tollfrjálst að taka þá móti gjafapakka frá landi utan við EB, ef verðmætið er undir 500 SEK. (7.200 Ísk.)

Íslenska ríkið er reyndar aðeins örlátara og leyfir gjafir frá útlöndum að verðmæti, 13.500 ISK. Þetta finnst mörgum alveg fárránlega lágar tölur og augljóst er að áratuga Norræn samvinna, aðild að EES samningum við EB, er einkins virði fyrir venjulega Jóna eins og mig og þig og fl.

En þetta með tollkröfu á móttakanda gjafa frá öðrum, er alveg gersamlega út í hött.
Því Ríkið setur nefnilega bæði gefanda og móttakanda í slæma aðstöðu:

  • Gjafamóttakandinn hefur auðvitað ekki hugmynd um verðmætið þess sem honum er sent/gefið og veit þar af leiðandi ekki hvort að krafan sé lögleg og réttlætanleg.
  • Gefandinn refsar óvart þeim sem hann ætlar að gleðja, ef hann er of heiðarlegur og skrifar rétt verðmæti á tollayfirlýsingu á innihaldi gjafarinnar og verður líka gleðidauðari í leiðinni. Allur spenningur farinn úr t.d. jólagjöfinni. Allt stendur þegar utan á póstpakkanum.
  • Ef gefandinn er óheiðarlegur og skrifar of lága verðmætatölu, eða gleymir því alfarið, þá krefst pósturinn sem nú er kominn í tollvarðavinnu líka, útskýringa um innihald og verðmæti frá aumingja gjafamóttakandanum.
    Skák og mát þar, strax í upphafi og staðan er 1-0 áður en leikurinn byrjar.

RÍKISREKIN FJÁRKÚGUN OG EINOKRUN!

Allir eru fyrir fram sekir…
… bæði gefendur og móttakendur gjafa, án dóms og laga og þurfa oftar en ekki að sanna sakleysi sitt og þar fyrir utan leggja mikið á sig í allskyns skriffinnsku og samtöl, við oft á tíðum kurteisa og ókurteisa algórytma, sem og til sýnis við heiladauða ríkisstarfsmenn.
Til þess eins að fá taka á móti gjöf eða að gleðja sjálfur vini og ættingja með gjöfum.

Mér skilst að Íslands Póstur bjóði stundum fólki sem fær grunsamlegar gjafir frá útlöndum, að rífa upp pakkann fyrir mann, gegn vægu gjaldi (3000 og eitthvað minnir mig) og þar á eftir dæma um skatta og gjöld. Pakkinn er tekinn sem gísl og fær ekki að fara neitt fyrr en þetta með verðmæti og innhaldið sem móttakandinn veit ekkert um er komið á hreint.

Stundum þarf fólk að meira að segja að sanna skyldleika gefandans við móttakanda, fyrir þessum sjálfskipuðu tollvörðum sem kunna ekki að lesa fæðingardaga úr kennitölum að alsaklaust fólk eigi nú örugglega afmæli og hafi þar af leiðandi ósjálfrátt ástæðu til þess að fá pakka frá útlöndum.

Hér úti var mér aldrei boðið að ræða við kóng eða prest, hvort að ég gæti komist undan því að borga toll af jólagjöfinni góðu.
Nei, bara tölvupóstur sem sagði: Borgaðu og vertu glaður og það núna strax, “online”. En eins og vanalega með allt sem kemur frá eða fer í gengum PostNord þá var það ekkert að virka og daginn eftir fékk ég pappírs bréf og í því var mér hótað að pakkinn yrði sendur til baka ef ég borgaði ekki.

Hringdi síðan daginn eftir, eftir mikla leit að símanúmeri í þjónustuver póstsins (sem þeir vilja helst ekki að fólk finni) sem sinnir tollvarðastörfum og svo talaði ég loksins við lifandi unga manneskju sem vissi akkúrat ekkert um EU-, EES-, Efta- eða Schengenlöndin.

Fékk samt hjálp með að greiða þessa óvæntu fjárkúgunarkröfu símleiðis á núll einni.

Ásgeir vinur minn og nágranni hér í Nol þurfti reyndar að borga miklu meira en ég, fyrir jólagjafirnar frá pabba sínum og mömmu, því þau eru fjögur til heimilis þar. Reyndar var rétt eins og alltaf, hangikjöt, harðfiskur og Ora grænar baunir í pökkunum frá þeim líka, en í ár kostaði það Ásgeir og fjölskyldu 720 SKR (10.415 ÍSK) að þiggja jólagjafir og fá Íslenskt góðgæti til sín fyrir jólin.

GJAFIR TIL ÍSLENDINGA FRÁ ÚTLÖNDUM

Hér neðar er “einfaldaður texti” um gjafir til Íslendinga og eins og sjá má, liggja allir undir grun fyrir fram, en þessi texti er lánaður frá:
https://www.tollur.is/einstaklingar/oft-spurt-um/spurt-og-svarad-tollar/gjafir-til-einstaklinga/

ATH. Viðbætur innan sviga eru lágkúrulegar ábendingar frá pistlahöfundi.

Í tollalögum er heimild til undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda (innflutningsgjalda) af gjöfum til einstaklinga.
Texti á þessari síðu er einfaldaður, lagatextinn er það sem gildir við tollafgreiðslu. 

ÞÚ GETUR EKKI NOTIÐ UNDANÞÁGUNNAR EF ÞÚ:

  • Biður fyrirtæki eða einhvern sem býr eða er í útlöndum að senda þér vörur sem gjöf.
    (Hmm… aldrei hefi mér dottið þetta í hug.. en takk fyrir gott ráð)
  • Sendir sjálfum þér gjöf frá útlöndum. 
    ( Miðað við póstburðargjöld er líklega betra og ódýrara að reyna að smygla gjöfinni með í farangrinum í fluginu heim og þykjast síðan verða hissa yfir gjöfinni þegar heim er komið)

UPPFYLLA ÞARF ÁKVEÐIN SKILYRÐI:

  • Einstaklingur sem er með lögheimili eða fasta búsetu þarf að senda gjöfina hingað eða taka hana með sér til landsins.
    (Ha… búsetur hvar? Á Íslandi, Grímsey eða í útlöndum?)
  • Gjöfin þarf að vera gefin af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni.
    ( Gjafir í atvinnuskyni, heita reyndar oftast mútur og við venjulegt fólk erum mest lítið í því.)
  • Til dæmis getur verið um að ræða afmælisgjafir, jólagjafir, fermingargjafir eða brúðkaupsgjafir.
    ( Já, þú segir nokkuð.)
  • Verðmæti gjafarinnar þarf að vera innan þeirra marka sem fram koma í lögunum (nú 13.500 kr).
    ( Persónulega finnst mér það ekki koma Ríkinu við hversu gjafmildur ÉG vill vera og fjórar eða fimm jólagjafir í sama pakka, fara oftast léttilega yfir þessa aulaupphæð sem einhver bráðgáfaður ríkisstarfsmaður fann uppá, en takk, þessi regla kennir okkur að ljúga rétt.)
  • Ef gjöfin er dýrari reiknast innflutningsgjöld af þeirri upphæð sem umfram er.
    ( Ók, skil, en hvernig á aumingja afmælisbarnið að vita það? Vill og verður maður vita það?)
  • Brúðkaupsgjafir geta verið dýrari, Tollstjóra er falið að meta hvort um hæfilega gjöf sé að ræða.
    ( Hmm… 🤔 þessum svokallaða “Tollstjóra” sem allt eins gæti verið stafsmaður á plani hjá Íslands Pósti er sem sagt treyst fyrir því að fara nú ekki í manngreiningarálit á milli hvað fátækum og ríkum finnist við hæfi að gefa í brúkaupsgjöf? Hvað ætli hinum velstæða Bjarna Ben, finnist hæfileg summa?)
  • Flytja þarf brúðkaupsgjafir til Íslands innan sex mánaða frá brúðkaupi.
    ( Já, og það vonandi fyrir skilnað! En hvaða líkur eru á því að fólk gifti sig til þess eins að fá óskattaðar gjafir frá útlöndum? En “Why not,” ég man reyndar eftir því að almenningur svindlaði út sinn eigin sparnað með sparimerkja-giftingum.)
  • Viðtakandi þarf að sýna fram á tengsl við sendandann og að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða.
    ( En gáfulegt,🧐 á maður að þá senda með skjáskot úr Íslendingabók með gjöfinni sem sanna ættartengsl? En hvernig sannar maður vinatengsl? Eða að “hen” sé kærasti eða kærasta? Hvað kemur tollstjóra það við, hverja ég elska eða þekki eða tilefni þess að mig langi til að senda vinagjöf?)
  • Fylgi reikningur ekki áætlar Tollstjóri verðmæti gjafarinnar.
    ( Halló, halló Hafnarfjörður… það eru bara dónar sem setja reikninginn með í jólagjafapakkann og aular sem gleyma að klippa verðmiðana af og bara nískupúkar sem sjá eftir gjöfinni spara kvittanir og verðmiða.)
  • Sé mörgum gjöfum pakkað saman er mikilvægt að fram komi í fylgiskjölum að margar gjafir séu í pakkanum svo hver og ein gjöf njóti undanþágu. (Svar: Sjá mynd af plássleysinu á þessum staðlaða tollamiða.

Við höfum þar fyrir utan ýmislegt annað gera en að skrásetja allt sem er í jólapökkum, þetta yrði langur listi sem enginn jólagjafa-póst-tollvörður nennir að lesa:

En ok, ef við verðum:

Pakki 1: Kerti og spil, minnir mig, kostaði heilar 25 krónur sænskar á útsölu.

Pakki 2: Trefil handa ömmu Dóru, prjónaði hann sjálf/ur. Lopann fékk ég frá mömmu sem gjöf í fyrra sumar. (ÚPS! Má það? En aumingja mamma, man ekki hvað lopinn kostaði)

Pakki 3: Sænsk síld í dós, handa vinkonu mömmu. Þær eru búnar að vera vinkonur í meira en hálfa öld, eins og sjá má á Fésbókarsíðunni hennar, því til sönnunar.

Að lokum bendir Ríkið okkur á eftirfarandi:

  • Áfengi og tóbak njóta ekki undanþágu sem gjafir.
    (…. það vantar bara til áhersluauka … og ekki dóp heldur! Halló! Við, almenningur, erum ekki hálfvitar sem eru fæddir í gær.)

Ítarleg umfjöllun um gjafir er á þessari síðu hjá skatturinn.is.

Að lokum.
Góður vinur heima á Íslandi skrifaði eftirfarandi til mín, eftir að hafa fengið að lesa þessa ádeilu fyrstur af öllum:

“…En þetta tollgjald á gjafir er út í hött og tittlingaskítur og kallar á heilmikinn mannskap að yfirfara…”

Höfundur, ljósmyndari og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Aðrar sögur, greinar og fleira eftir sama höfund á trölli.is, sjá yfirlit hér:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON