Í þættinum Tónlistin í dag verður afmælisþema, ef þema skyldi kalla.
Þannig vill til að Björn Einarsson, vélvirkjameistari og bóndi á Bessastöðum í Hrútafirði og faðir þáttarstjórnanda Tónlistarinnar, hefði orðið 80 ára í dag hefði hann lifað en hann lést úr krabbameini 23. júlí 1992.
Björn var mikill tónlistarunnandi og hafði víðtækan áhuga á tónlist, bæði hvað varðar sköpun hennar og stefnur.
Á ungdómsárum mínum fór ég oft með pabba út í sveit að gera við allskyns vélar og græjur svo sem traktora og heyvinnuvélar. Einnig jarðýtu eina sem ræktunarfélag í Miðfirði átti. Á meðal þeirra laga sem pabbi raulaði mest er við vorum saman úti í sveit í þessum viðgerðarferðum voru til dæmis Misery með Bítlunum, Itsy Bitsy Teenie Weenie með Brian Hyland, Ofboðslega frægur með Stuðmönnum og Einbúinn með Vilhjálmi Viljálmssyni. og svo mörg mörg fleiri.
Ef verkefnið sem unnið var krafðist mikillar einbeitingar og nákvæmni þá blístraði hann lagið Vikivaki eftir Jón Múla Árnason.
“Þetta lag hefur svo einstaklega róandi áhrif á mig að ég gleymi að hugsa hversu illa verkefnið getur farið ef eitthvað klikkar. Og þá klikkar bara ekki neitt. Jón Múli klikkar nefnilega aldrei” sagði hann við mig kampakátur að verki loknu.
Pabbi var giftur Ólöfu Pálsdóttur (mömmu) frá Bjargi í Miðfirði. Ólöf (alltaf kölluð Lóa) var stjórnandi karlakórsins Lóuþrælar sem pabbi var einn af stofnmeðlimum í. En annars voru meðlimir kórsins í byrjun bændur í Hrútafirði og Miðfirði.
Ég mun spila einhver lög af diskinum Gömul spor sem kórinn gaf út árið 1994 til minningar um Björn ásamt áður upptöldum lögum og mörg önnur sem pabba fannst skemmtileg, og líklega nokkur gefin út eftir hans dag sem honum hefði ugglaust fundist nokkuð skemmtileg.
Það verða því lög í eldri kantinum í þættinum í dag sem er æðislegt því þátturinn Tónlistin hefur líka gaman af eldri tónlist svo ekki missa af þættinum á FM Trölla. Og látið ykkur ekki bregða ef þið heyrið lag í flutningi karlakórs og þar strax á eftir lag flutt af Bubba, Deep Purple eða jafnvel Ragga Bjarna. Þátturinn Tónlistin er ákaflega fjölbreyttur þáttur.
FM Trölli næst á FM 103.7 á Tröllaskaga, í Skagafirði, á Hvammstanga og nágrenni og auðvitað um allan heim hér á vefnum trolli.is
Minnum sjómenn á hafi úti og aðra með takmörkuð netsambönd á skip.trolli.is