Ristarhlið og sjúkdómavarnir á Norðurlandi vestra

Matvælastofnun áréttar að ristarhlið á mörkum varnarhólfa gegn sauðfjársjúkdómum verða ekki fjarlægð nema tryggt sé að sauðfé komist ekki yfir varnarlínur.

Vegagerðin setti sig í samband við Matvælastofnun vegna áforma um að fjarlægja tvö ristarhlið á þjóðvegi 1 í Húnaþingi og eitt ristarhlið við Héraðsvötn í Skagafirði. Ristarhliðin eru í slæmu ástandi og ógna umferðaröryggi að mati Vegagerðarinnar.

Matvælastofnun upplýsti Vegagerðina um svar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um heimild til að fjarlægja ristarhliðin með fyrirvara um að ekki stafi ógn af því m.t.t. smitsjúkdóma í dýrum. Tilteknar varnarlínur eru milli riðu- og riðulausra svæða og ekki forsendur til að veita tilslakanir. Mistök í samskiptum urðu til þess að Vegagerðin taldi sig hafa heimild til að fjarlægja ristarhliðin.

Ristarhliðin þrjú eru enn á sínum stað og verða ekki fjarlægð nema smitvarnir séu tryggðar. Tjón hefur hins vegar orðið á girðingu við ristarhliðið við Héraðsvötn með þeim afleiðingum að tveir línubrjótar komust í gegn. Starfsmenn Matvælastofnunar brugðust strax við og aflífuðu kindurnar tvær. Viðgerð á girðingunni er í forgangi.

Matvælastofnun, Vegagerðin og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið munu skoða hvernig standa eigi að vegaframkvæmdunum þannig að umferðaröryggi og dýraheilbrigði sé eins og best verður á kosið. Skoða á mast.is

Aðsent.