Matvælastofnun vekur athygli á reglum um sölu orkudrykkja í tilefni af tannverndarviku. Auk þess að vera súrir innihalda orkudrykkir koffín. Nýlegt áhættumat sýnir að neysla ungmenna á koffínríkum orkudrykkjum sé mikil og hefur neikvæð áhrif á svefn og líðan ungmenna.
Dagana 1.-5. febrúar stendur Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands fyrir tannverndarviku sem hefur þann tilgang að vekja athygli á tannheilsu en ekki síður almenna heilsu ungmenna. Áhersla í ár er á orkudrykki. Orkudrykkir innihalda allir koffín sem hefur neikvæð áhrif á svefn og líðan ungmenna ef neytt er í miklu magni. Þeir eru allir með lágt sýrustig (pH< 5.5) sem eyðir glerungi á tönnum. Þetta á bæði við sæta og sykurlausa orkudrykki.
Um orkudrykki gildir reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda og reglugerð nr. 453/2014 þar sem sett er hámarksmagn koffíns við 320 mg/l.
Hvað þýðir þetta?
Reglugerð nr. 1294/2014 setur kröfu um að allir orkudrykkir og í raun allir drykkir sem innihalda meira en 150 mg/l af koffíni séu merktir með varúðarmerkingu á íslensku: „Inniheldur mikið af koffíni. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“. Þar á eftir skulu birtar upplýsingar um magn koffíns í mg/100 ml.
Matvælastofnun hvetur:
- foreldra og ekki síður unglinga að kynna sér innihald koffíns í vörum sem þeir kaupa.
- innflytjendur og framleiðendur að kynna sér þær reglur sem um orkudrykki gilda.
Reglugerð nr. 453/2014 setur hámarksmagn koffíns við 320 mg/l á drykkjavöru. Engin orkudrykkur sem inniheldur meira en það magn á að vera á markaði nema með sérstöku skilyrtu leyfi frá Matvælastofnun. Þessa orkudrykki er bannað að selja til barna yngri en 18 ára.
Þá gildir eftirfarandi:
- Orkudrykkir með koffíninnihald yfir 320 mg/l þurfa að vera merktir á framhlið vörunnar með varúðarmerkingunni: „Ekki selt börnum undir 18 ára aldri“.
- Verslarnir mega ekki selja sterka orkudrykki til barna.
Löggjöfin setur skýrar reglur um merkingar á orkudrykkjum þannig að allir geti verið upplýstir um koffínmagn í þeim. Sölubann á sterkum orkudrykkjum er sett þar að auki.
Ítarefni
- Um tannverndarvikuna á vef Embættis landlæknis
- Neysla ungmenna á orkudrykkjum gefur tilefni til aðgerða – frétt Matvælastofnunar frá 07.10.20
- Upptaka frá málþingi Matvælastofnunar um orkudrykki og ungt fólk
Mynd/pixabay