Til stendur að fjarlægja útilistaverkið Flæði eftir Kristinn E. Hrafnsson sem stendur á lóð Aðalgötu 14 í Ólafsfirði, gamla Sparisjóðshúsinu.
Á 847. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var farið yfir minnisblað deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og menningarfulltrúa um útilistaverkið Flæði.
Einnig fylgdi skýrsla um ástandsskoðun verksins sem unnin var með tilliti til ástands, endurbóta og færslu listaverksins. Skýrslan var unnin af verkfræðistofunni Eflu.
Fyrir liggur að fjarlægja þarf verkið og taka ákvörðun um framtíð þess. Til stendur að nýir eigendur hússins byggi þar upp gistihús. Til fundarins mætti menningarfulltrúi Fjallabyggðar og fór yfir málavexti.
Bæjarráð hefur falið starfsmönnum sveitarfélagsins í samráði við lögmann sveitarfélagsins um að kalla eftir samþykki viðeigandi stofnana til þess að taka verkið niður af lóðinni.
Verkið var unnið af Kristni E. Hrafnssyni á árunum 1990 til 1994 og er umfang þess fjórir sinnum sex metrar.
Sjá upplýsingar um listaverkið á vefsíðu Listasafns Fjallabyggðar: HÉR