Laugardaginn 5. maí 2018 er viðmiðunardagur kjörskrár vegna kosninga til sveitarstjórna sem hafa verið auglýstar þann 26. maí nk.
Kosningarétt við sveitarstjórnarkosningarnar þann 26. maí nk. eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag. Íslenskir ríkisborgarar sem stunda nám á Norðurlöndunum og sem þurft hafa að flytja lögheimili sitt þangað vegna ákvæða samnings Norðurlandanna um almannaskráningu, glata ekki kosningarétti sínum vegna þess. Að því sögðu minni ég á nýtt fyrirkomulag þar sem námsmenn á Norðurlöndunum þurfa nú að tilkynna sig og senda staðfestingu á námi til Þjóðskrár Íslands til þess að vera skráðir á kjörskrá, https://www.skra.is/um-okkur/frettir/frett/2018/02/15/Skraning-namsmanna-a-Nordurlondum-a-kjorskra/
Einnig eiga kosningarétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, sem og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda hafi þeir náð 18 ára aldri á kjördag og eiga skráð lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, https://www.stjornarradid.is/verkefni/kosningar/sveitarstjornarkosningar-2018/kjosendur-leidbeiningar/ .
Flutningur á lögheimili á milli sveitarfélaga og innan sveitarfélags, sem á sér stað eftir 5. maí nk. mun ekki hafa áhrif á útgefinn kjörskrárstofn og þurfa því tilkynningar um lögheimilisbreytingar að berast Þjóðskrá Íslands í síðasta lagi 4. maí eigi þær breytingar að verða skráðar í þjóðskrá fyrir viðmiðunardag.
Allri vinnslu í Kjördeildarkerfi, þar sem raðað er niður á kjörstaði og kjördeildir, þarf að vera lokið fyrir 5. maí.
Prentútgáfa kjörskrárstofns verður tilbúin til afhendingar miðvikudaginn 9. maí nk. Verður kjörskráin prentuð í 3 eintökum eins og vant er. Þeir sem vilja fleiri eintök þurfa að óska eftir því tímanlega við undirritaða á netfangið ago@skra.is.
Stefnt er að því að opnað verði fyrir uppflettingu í kjörskrárstofni „Hvar á ég að kjósa“ mánudaginn 7. maí á vefnum https://www.stjornarradid.is/verkefni/kosningar/sveitarstjornarkosningar-2018/
(slóðin www.kosning.is vísar beint inn á fyrrnefndan vef) og www.island.is.
Texti og mynd fengin af vef: Fjallabyggðar