Úrvinnslusóttkví sú sem sett var á í Húnaþingi vestra þann 21. mars síðastliðinn er felld úr gildi frá og með miðnætti föstudaginn 27. mars 2020.
Jafnframt gilda frá nefndu tímamarki almennar reglur um samkomubann sem settar voru af sóttvarnalækni og gilda fyrir landið allt.
Eftir sem áður vill Aðgerðastjórn almannavarna Norðurlands vestra, beina því til almennings að gæta almennra sóttvarna og virða þær reglur og viðmið sem gefin hafa verið út af sóttvarnalækni (sjá covid.is) til hins ýtrasta.
Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra vill færa íbúum Húnaþings vestra sérstakar þakkir fyrir að hafa sýnt skilning, þolinmæði, samvinnu og að hafa brugðist vel við þeim aðstæðum sem úrvinnslusóttkví hefur haft í för með sér fyrir íbúa svæðisins og starfsemi innan sveitarfélagsins.