Framkvæmdasýsla ríkisins lagði erindi fyrir bæjarráð Fjallabyggðar, dags. 05.02.2021 þar sem fram kemur að útboð í 4. áfanga ofanflóðavarna í Hafnarfjalli er hafið. Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Útboð á efni og hönnun stoðvirkja er komið á útboðsvefinn og verða tilboð opnuð þann 5. apríl n.k. Í framhaldi af efnisútboðinu verður uppsetning stoðvirkjanna í fjallinu boðin út og er vinna við útboðsgögnin hafin. Væntanlegur uppsetningaverktaki þarf að hafa aðstöðu til samsetningar stoðvirkjagrindanna og er flugvallarsvæðið besti kosturinn til þess, með tilliti til athafnasvæðis og flugs með grindurnar í fjallið.

Í fyrri útboðum hefur verktaki haft til umráða aðstöðu á Siglufjarðarflugvelli sbr. texta í útboðs- og samningsskilmálum „Verktaki fær til umráða vinnusvæði við flugvöllinn á Siglufirði þar sem efni til verksins verður afhent. Jafnframt fær verktaki afnot af flugstöðvarbyggingunni á
meðan á framkvæmdum stendur. Nýti verktaki sér aðstöðuna í flugstöðvarbyggingunni skal hann greiða rekstur húsnæðisins, hita og rafmagn á meðan hann nýtir húsið“.

Fyrirkomulagið hefur verið þannig að verktakinn fær aðstöðuna til afnota og greiðir rekstrarkostnað af aðstöðunni. Fjallabyggð hefur síðan gert reikning á Ofanflóðasjóð fyrir leigu á aðstöðunni og leigutekjur hafa verið nýttar til lagfæringar og uppbyggingar á flugstöðinni.

Þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel bæði fyrir verktakann og umráðaaðila flugstöðvarinnar.
Óskað er eftir að bæjarráð samþykki þetta fyrirkomulag við útboð á uppsetningu stoðvirkja 4. áfanga.

Verktími er áætlaður 2021 – 2024.

Mynd/aðsend