Kajakræðarinn og transkonan Veiga Grétarsdóttir tók land á Siglufirði um kl. 18:00 í gær. Fóru björgunarsveitarmenn til móts við hana í mynni Héðinsfjarðar og kajakræðarar fylgdu henni síðasta spölinn.

 

Veiga Grétarsdóttir rær inn Siglufjörð

 

Veiga hafði áformað að taka land á Siglunesi og gista þar í tjaldi, en eftir að henni bárust fregnir af þessum góðu móttökum á Siglufirði ákvað hún að róa inn fjörðinn og njóta gestrisni Sigló Hótels.

Fulltrúar frá Fjallabyggð og fjöldi manns tóku á móti Veigu, var hún glöð og þakklát fyrir móttökuna.

 

Veiga nálgast Hafnarbryggjuna ásamt fylgdarliði

 

Veiga lagði af stað frá heimabænum sínum Ísafirði þann 14. maí síðastliðinn og fer rangsælis um landið, á móti straumnum og er þetta í fyrsta sinn sem einhver ræðst í slíkt afrek.

Veiga stefnir á að ljúka hringnum ekki seinna en 14. ágúst og vonar að það gangi eftir ef veður verður hagstætt eins og undanfarna daga.

 

Fjögur ár eru síðan Veiga lét leiðrétta kyn sitt eða þegar hún var 38 ára. Leiðangurinn er táknrænn fyrir þær breytingar sem orðið hafa á hennar lífi

 

Hún hélt förinni áfram í morgun en ætlar að koma akandi frá næsta viðkomustað til að halda fyrirlestur í Ráðhúsinu á Siglufirði í kvöld. Þar mun hún fjalla um reynslu sína af vanlíðan, sjálfsvígshugsunum, kynleiðréttingarferlinu og hvernig kajaksiglingar hafa hjálpað henni til að finna tilgang með lífinu. Veiga rær til að safna áheitum fyrir Píeta samtökin, sem sinna þjónustu við fólk í sjálfsvígshættu, með sjálfsskaða og aðstandendur.

 

Komin til Siglufjarðar

 

Í för með Veigu er Skagfirðingurinn Óskar Páll Sveinsson sem er að vinna að heimildarmynd um ferðalag Veigu.

Frekari upplýsingar um Veigu og verkefnið hennar má finna á eftirfarandi vefslóðum: https://www.veiga.is og https://pieta.is/a-moti-straumnum/

 

Hennar fyrsta verk eftir að hún kom í land var að tilkynna það

 

Hrefna Katrín Svavarsdóttir með soninn Eirík Hrafn að taka á móti frænku sinni

 

Veiga var ánægð með móttökuna