Fjölskyldan saman á Fiskideginum mikla, dagana 8. til 11. ágúst 2019 í Dalvíkurbyggð
◦ Fjölbreyttur matseðill.
◦ Strandhreinsun Fiskidagsins mikla.
◦ Þyrla Landhelgisgæslunnar.
◦ Fiskisúpukvöldið 15 ára.
◦ Stórkostleg tónlistarveisla.
◦ Glæsileg flugeldasýning.
◦ Góðir heiðursgestir.
◦ 20 ára aldurstakmark á tjaldsvæðunum.

◦ Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í 19. sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk.
Ennfremur er allur matur og skemmtun á hátíðarsvæðinu ókeypis.

Þyrlusýning Landhelgisgæslunnar – Mætum snemma.
Þyrlusýning hefst kl. 10:30 og dagskrá á sviði er frá klukkan 11:00 til 17:00.
Á sjálfum Fiskideginum Mikla, laugardaginn 10. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl. 11:00 opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst. Við mælum með því að gestir séu mættir tímanlega en í ár kemur þyrla landhelgisgæslunnar og sýnir listir sínar og björgun úr sjó kl.10.30. Í kjölfarið hefst Fiskidagurinn Mikli sjálfur og þá er gott aðgengi að öllum stöðvum og enginn missir af neinu. Bent er á að verðlaunaafhendingar fyrir fjölskylduratleik og fleira verður snemma í dagskránni og þeir sem eru dregnir út í verðlaunaleikjum verða að vera á staðnum.

Gellur, plokkfiskur, ostafylltar fiskibollur, indverskt og Egils Appelsín.
Matseðill Fiskidagsins 2019 er áhugaverður að vanda, Friðrik V. er yfirkokkur og lagði línurnar að góðum matseðli ásamt sínu fólki. Þar má að sjálfsögðu finna gamla og góða rétti eins og síld og rúgbrauð, filsur sem eru fiskipylsur í brauði, harðfisk og íslenskt smjör, fersku rækjurnar og fiskborgarana. Það er öflug grillsveit sem grillar fiskborgarana en líkt og á síðasta ári sameinast árgangur 1965 árgangi 1966 sem hefur staðið vaktina í mörg ár. Allir drykkir á hátíðinni eru í boði Egils Appelsín. Sushi Corner á Akureyri mætir aftur til okkar eftir að hafa slegið í gegn í fyrra. Fiskurinn á grillunum er með nýju sniði, bleikja í Pang Gang sósu og þorskur í karamellu og mangósósu. Á bás Friðriks V. verður í boði Hríseyjarhvannargrafin bleikja eins og á síðasta ári en nýjung á þeim bás verða djúpsteiktar gellur. Akureyri FISH og Reykjavík FISH koma með Fish and chips. Indverskt rækjusalat í boði Dögunar verður á sér bás. NINGS fjölskyldan mætir með risasúpupottinn þar sem boðið verður uppá austurlenska rækju og bleikjusúpu. Aðstoðarkokkur Fiskidagsins mikla Addi Yellow stýrir sasimi stöðinni þar sem að langreyður frá Hval h.f. og bleikja verða í boði.
Grímur kokkur mætir sjóðandi heitur eftir árshlé með plokkfiskinn góða og ostafylltar fiskibollur, það sama er uppá teningnum hjá Moorthy og fjölskyldu í Indian Curry House áAkureyri þau mæta til baka eftir árshlé með Tandoori bleikju og Naan brauð. Kaffibrennslan býður uppá besta kaffið svartan Rúbín. Íspinnarnir frá Samhentum Umbúðamiðlun vinum Fiskidagsins mikla númer 1. klikka aldrei. Samherji býður uppá sælgæti og merki dagsins.
Allar nánari upplýsingar um matseðilinn veitir Friðrik V. í síma 863.6746

Fiskasýning, Andlitsmálun, Disney kastali, þyrluflug og sýndarveruleikavideó.
Skemmti og afþreyingar dagskráin á hátíðarsvæðinu milli 10.30 og 17.00 er fjölbreytt.
Dagskráin hefst með látum þegar þyrla landhelgisgæslunnar sýnir listir sínar. Árni frá Skottafilm á Sauðárkróki verður með sýndarveruleikavideó frá vinnslu og veiðum. GG sjósport leyfir öllum að prófa Sit-On-Top kajakana. Fjöldi fallegra og fægðra fornbíla frá Bílaklúbbi Akureyrar verða til sýnis. Danshópurinn vefarinn sýnir þjóðdansa vítt og breytt um svæðið. Frá Reykjavík kemur hinn magnaði danshópur Superkidsclubjr. Teikniveröld fyrir börnin í salthúsinu og börnin fá glaðning þegar þau skila mynd. Fimleikafélag Akureyrar sér um andlitsmálun. Grímseyjarferjan verður við ferjubryggjuna. Myndasýning um starfsemi Samherja til sjós og lands. Vinir okkar úr Latabæ dreifa happadrættismiðum. Leikhópurinn Lotta verður með tvær sýningar yfir daginn á hátíðarsvæðinu þar sem að þau verða með söngva úr leikritunum sem að þau hafa sýnt s.l. 11 ár. Fiskasýningin magnaða var sett upp innandyra í fyrra og endurbætt og nú höldum við þeim endurbótum áfram með lýsingu, textum, myndböndum og fleiru. Um miðjan daginn verður sýndur hákarlaskurður. Listamenn dansa, syngja, spila, mála, teikna og sýna listir sínar víða um svæðið. Að venju er Björgunarsveitin á Dalvík með tjald á bryggjunni þar sem að hægt er að fá skyndihjálp og leita má til þeirra vegna týndra barna og fleira.
Nánari upplýsingar um Fiskasýninguna veitir Skarphéðinn Ásbjörnsson í síma 892.6662

Vináttukeðja – setning hátíðarinnar – mætum tímanlega.
Setning Fiskidagsins Mikla er á Vináttukeðjunni föstudaginn 9. ágúst kl. 18:00. Vináttu, gleði og kærleiksfánum verður dreift til barna í upphafi dagskrár. Við skorum á gesti að mæta snemma. Meðal þeirra sem fram koma á Vináttukeðjunni eru: Ljótu hálfvitarnir sem verða með tónleika í Menningarhúsinu Bergi á föstudagskvöldinu kl. 22.30 eftir að súpukvöldinu lýkur formlega hljómsveitin Angurværð sem á lag á topplag á vinsældarlista Rásar 2 með lagið ferðalangur, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Gyða Jóhannesdóttir og karlaraddir úr Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna 2019 flytur Sigurður Þorri Gunnarsson útvarpsmaður fulltrúi Hinsegin daga í Reykjavík. Að venju verður flutt lagið Mamma eftir Friðrik Ómar Hjörleifsson og textinn eftir stjórnarformann Fiskidagsins Mikla Þorstein Má Aðalsteinsson. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleiks línur fyrir helgina. Knúskortum og vináttuböndum verður dreift í lok dagskrár.

Fiskisúpukvöldið 15 ára.
Föstudagskvöldið 9. ágúst verður Fiskisúpukvöldið en það er einstakt á sína vísu og er nú haldið í 15. sinn. Að venju eru fjöldinn allur af fjölskyldum sem tekur þátt. Súpukvöldið hefst kl. 20:15 og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni. Þungi þessa verkefnis liggur á herðum íbúanna og gesta þeirra en góðir aðilar leggja þessu verkefni mikið og gott lið. Það eru MS með rjóma, Kristjánsbakarí með brauði og Samherji með fiski. Í tilefni afmælisins verða margir súpugestgjafar með myndasýningar frá fyrri súpukvöldum.

Bílastæða mál
Skipuleggjendur Fiskidagsins mikla leggja áherslu á að gestir virði leiðbeiningar björgunarsveitarfólks og lögreglumanna um bílastæði. Á Dalvík eru allar vegalengdir stuttar svo það á ekki að vera mikið mál fyrir gesti að ganga. Einnig er óskað eftir því að heimamenn og gestir þeirra geymi bílana heima um þessa helgi.

Kvöldtónleikar og flugeldasýning í boði Samherja
Enn á ný er lagt af stað með stórtónleika að kvöldi Fiskidagsins mikla. Á áttunda tug tæknimanna, söngvara og hljóðfæraleikara taka þátt í þessari stórsýningu.  Meðal þeirra sem fram koma eru  heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Svo má nefna Valdimar, Svölu Björgvins, Siggu og Grétar í Stjórninni, Auði, Pál Óskar, Herra Hnetusmjör, Bjartmar Guðlaugsson, Eyjólfur Kristjánsson, Þorgeir Ástvaldsson og fleiri. Að venju er það stórhljómsveit Rigg viðburða sem leikur undir og dansarar undir stjórn Birnu Björnsdóttur. Dagskráin endar með flugeldasýningu sem björgunarsveitin á Dalvík sér um.
Nánari upplýsingar um tónleikana veitir Friðrik Ómar í síma 868.9353
Nánari upplýsingar um flugeldasýninguna veitir Haukur í síma 853.8565

Fjörur hreinsaðar – ruslið til sýnis. – nýr aðalstyrktaraðili.
Arctic Adventures í samvinnu við góða aðila munu taka þátt í dagskránni í ár með hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð. Arctic Adventures mun útvega báta og búnað til að fara upp í fjörur og hreinsa þar til. Farið verður í þessa hreinsun fimmtudaginn 8. ágúst með þátttöku íbúa og gesta hátíðarinnar. Skráning og nánari upplýsingar á facebooksiðunni „Strandhreinsun Fiskidagsins mikla“. Ruslið og það sem finnst við strendurnar verður til sýnis á laugardeginum eða sjálfum Fiskideginum mikla. Mikil vakning hefur orðið fyrir mikilvægi þess að hreinsa hafið og strandlengjur landsins. Við utanverðan Eyjafjörð eru margar fjörur illfærar og þar mun verkefnið að mestu fara fram. Það verður spennandi að sjá þetta verkefni blómstra. Það verða ýmisr samstarfsaðilar í þessu verkefni m.a. Samál sem mun endurvinna allt ál sem finnst og Gámþjónusta norðurlands sem flokkar og vinnur úr ruslinu, Sæplast sem sér um ker fyrir ruslið sem finnst, allir sjálfboðaliðarnir og fleiri.

Flokkun á rusli
Á s.l. ári hófst samstarf fjögurra aðila, Samáls samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Gámaþjónustu Norðurlands og Fiskidagsins mikla. Þá var álpappír, plast og almennt sorp flokkað ásamt dósum og plastflöskum sem voru flokkaðar af Björgunarsveitinni á Dalvík. Í ár höldum við áfram með sömu flokkun. Sæplast setur upp litakerfi og merkingar á Sæplastkör sem verða víða á hátíðarsvæðinu og standa vonir til þess að gestir kynni sér merkingar og leggi verkefninu lið. Gámaþjónusta Norðurlands sér að venju um að taka það sem flokkað er og kemur á rétta staði. Samál tekur síðan allan álpappír og endurvinnur.

Þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri er áhugaverð.
Á nítjánda ári Fiskidagsins mikla þegar horft er til baka er margt að hugsa um. Eitt af því sem er frábært er þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri. Það er magnað að ár eftir ár taki á fjórða hundrað sjálfboðaliðar þátt í að búa til það ævintýri sem fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn Mikli sannarlega er, þessir allra yngstu taka þátt í pökkun og skreytingum og þeir allra elstu pakka, skreyta, baka, afgreiða, grilla svo að fá eitt sé nefnt.

20 ára aldurstakmark.
Það er von aðstandenda Fiskidagsins Mikla að allir skemmti sér vel, njóti matarins og þeirra atriða sem í boði eru. Sérstaklega vonumst við til þess að allir eigi góðar og ljúfar stundir með
fjölskyldu og vinum. Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð þar sem hvorki er pláss fyrir dóp né drykkjulæti og leggja aðstandendur mikla áherslu á að íbúar og gestir hafi ekki áfengi um hönd á auglýstum dagskrárliðum Fiskidagsins Mikla: Vináttukeðjunni og á Fiskideginum milli kl. 11:00 og 17:00. Frá upphafi höfum við haft frábæra gesti sem hafa gengið einstaklega vel um og fyrir það viljum við þakka sérstaklega. Því miður þurfum við að breyta aldurstakmarki á tjaldstæðunum í 20 ára, viljum við beina því til foreldra og ungmenna að
VIRÐA þetta.

Góða skemmtun á fjölskylduhátíðinni Fiskideginum mikla í Dalvíkurbyggð.

 

Fréttatilkynning, forsíðumynd: Bjarni Eiríksson