Í jólablaði Einingar-Iðju má finna eftirfarandi umfjöllun um Verðlagseftirlit ASÍ.
Á vefsíðu ASÍ segir að markmið verðlagseftirlitsins sé annars vegar að auka upplýsingastreymi til neytenda og efla þannig neytendavitund og hins vegar að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald. Megináhersla í störfum verðlagseftirlitsins hefur verið lögð á að skoða matvörumarkaðinn en einnig hefur sjónum verið beint að ýmsu öðru sem viðkemur pyngju neytenda.
Verðlagseftirlitið hefur sett sér verklagsreglur við framkvæmd verðkannana sem tryggja gegnsæi og samræmi í starfseminni og má finna þær á heimasíðu ASÍ. Reglurnar voru samþykktar í miðstjórn ASÍ í maí 2009. Í þeim segir m.a. að Verðlagseftirlitið gætir fyllsta hlutleysis við öflun upplýsinga, úrvinnslu og birtingu verðkannana og að Verðlagseftirlitið byggir niðurstöður sínar eingöngu á þeim upplýsingum sem aflað er af starfsfólki þess.
Tíðindamaður blaðsins heyrði í Auði Ölfu Ólafsdóttur, verkefnastjóra Verðlagseftirlits ASÍ, og fékk frá henni nokkur orð um starfið.
Af hverju er ASÍ með verðlagseftirlit og síðan hvenær?
Verðlagseftirlit er gríðarlega mikilvægt enda eru neytendur og launafólk sitthvor hliðin á sama peningnum. Rétt eins og það skiptir máli að launafólk fái sanngjörn og mannsæmandi laun skiptir máli að eitthvað fáist fyrir launin. Þannig erum við í raun að berjast fyrir aukinni hlutdeild launþega af kökunni frá báðum hliðum, sem starfandi fólk hjá fyrirtækjum og sem neytendur í viðskiptum við fyrirtæki. Íslenskt efnahagslíf einkennist af sveiflum og óstöðugleika, háu vaxtastigi og tíðum verðhækkunum auk þess sem fákeppni ríkir á ýmsum mörkuðum. Verðlagseftirlit er mjög mikilvægt í slíku umhverfi en meginmarkmið þess er að auka upplýsingastreymi til neytenda og efla þannig neytendavitund og hins vegar að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald.
Verðlagseftirlit á Íslandi á sér langa sögu þó verðlagseftirlit í núverandi mynd sé nýrra. Verkalýðshreyfingin hefur frá upphafi lagt áherslu á að fylgjast með verðlagi þó það hafi ekki alltaf verið gert með skipulegum hætti. Árið 1976 fjallaði Alþýðusambandið t.d. um verðlagsmál í bæklingnum „Hvað veldur?“ og hvatti stjórnvöld til að láta gera verðkannanir. Það skilaði einhverjum árangri þó þau skref sem stigin voru hafi verið langt frá óskum ASÍ.
Á áttunda áratugnum í kjölfar kjarasamninganna 1986 sem hafa nefndir verið fyrri þjóðarsáttin, var mikil áhersla lögð á að draga úr verðhækkunum. Verkalýðshreyfingin hóf þá átak til þess að fylgjast með verðhækkunum og setti ASÍ á fót nefnd til að hafa yfirumsjón með þessum málum í samstarfi við Verðlagsstofnun. Þessari starfsemi var haldið áfram og var því m.a. fylgt eftir að lækkun virðisaukaskatts á matvæli skilaði sér til neytenda. Árið 2001 var ákveðið að ríkisstjórnin myndi styrkja ASÍ til að halda úti verðlagseftirliti og var ráðinn verkefnastjóri til að sinna eftirlitinu. Árið 2009 voru síðan samþykktar verklagsreglur fyrir verðlagseftirlitið eins og þær eru í núverandi mynd.
Hver tekur ákvörðun, eða hvernig ákveðið þið hvað eigi að skoða og kanna?
Það sem við horfum helst til þegar við ákveðum hvaða vörur eða þjónustu við ætlum að kanna er hversu þungt það vegur í innkaupum neytenda og þess vegna erum við til að mynda með tíðar verðkannanir á matvöru. Þá horfum við líka stundum til þess samfélagsumræðunnar þannig ef mikil umræða hefur verið um einhvern markað grípum við stundum tækifærið og könnum verð á þeim markaði eða þeirri vöru og þjónustu sem er til umræðu. Auk matvöru hefur verðlagseftirlitið lagt áherslu á að kanna verð á ýmsum öðrum liðum sem vega þungt í útgjöldum heimilanna. Þar má nefna bankakostnað, vexti, tryggingar, lyf og opinber gjöld eins og fasteignagjöld, leikskólagjöld og dagvistunargjöld fyrir dvöl á frístundaheimilum.
Ég tek ákvarðanir um hvað er kannað hverju sinni en ég fæ stundum ábendingar frá almenningi eða fólki úr hreyfingunni um markaði sem það telur að þörf sé á að skoða. Þá gerum við stundum úttektir eða skrifum umfjallanir sem eru einskonar tilbrigði af verðkönnunum eða áframhald af þeim. Sem dæmi um slíkt er þegar við skoðuðum hvað mætti spara með því að ferðast með mismunandi samgöngumátum, umfjöllun um hvaða hópar tilheyra forgangshópum sveitarfélaganna og geta fengið afslátt af leikskólagjöldum og skóladagvistunargjöldum.
Finnst þér fyrirtækin reyna að taka sig á ef þau koma illa út í könnun?
Já ég hef oft orðið vör við breytingar á verðlagningu hjá fyrirtækjum í kjölfar verðkannana hjá okkur. Stundum er um tímabundnar breytingar að ræða sem ganga til baka eða tilboð en í einhverjum tilfellum hafa verslanir breytt um verðstefnu til frambúðar.
Þetta eru auðvitað dæmi um miklar og sýnilegar lækkanir á verði á vöru og/eða þjónustu en verðkannanir veita fyrirtækjum og stofnunum einnig nauðsynlegt aðhald sem kemur í veg fyrir óhóflegar verðhækkanir. Verð lækkar því ekki alltaf en það hækkar minna en það hefði ef eftirlitið væri ekki til staðar. Aðhaldið liggur í raun í ákvörðunum viðskiptavina sem geta stuðst við upplýsingar úr verðkönnunum verðlagseftirlitsins við ákvarðanatöku.
Þegar neytendur hafa takmarkaðar upplýsingar um verð og eiga erfitt með að gera verðsamanburð dregur það úr samkeppni. Þetta birtist með skýrum hætti á banka og tryggingamarkaði þar sem það er nær ómögulegt fyrir neytendur að bera saman verð hjá aðilum á sama markaði sem gerir það að verkum að þeir færa sig síður á milli fyrirtækja og samkeppni á viðkomandi markaði er minni.
Þið hélduð málþing um samkeppnis- og neytendamál með Neytendasamtökunum í október, hvernig gekk það?
Þetta er í annað sinn sem verðlagseftirlit ASÍ og Neytendasamtökin taka höndum saman og standa sameiginlega að málþingi. Árið 2019 héldum við málþing sem bar yfirskriftina „Af hverju er verðlag á Íslandi svona hátt.’’ Það málþing var afar vel sótt og vakti mikla athygli og umræðu í samfélaginu.
Þann 26. október héldum við málþing um samkeppnis- og neytendamál undir yfirskriftinni „Eru Íslendingar lélegir neytendur“.
Samkeppnis- og neytendamál eru gríðarlega mikilvægir málaflokkar fyrir vinnumarkað, atvinnulíf, viðskipti, verðlag, jöfnuð og lífskjör. Markmið fundarins var því að varpa ljósi á hvað megi betur fara í þessum málum hér á landi og var sjónum því beint að hlutverki, stöðu og umhverfi þeirra opinberu stofnanna og félagasamtaka sem fara með málaflokkana hér á landi. Mikið hefur verið deilt um starfsemi Samkeppniseftirlitsins og hafa ýmis öfl talað fyrir veikingu þess sem myndi hafa í för með sér aukinn ójöfnuð og kjaraskerðingu fyrir íslenskan almenning auk þess að veikja atvinnulíf og vinnumarkað. Sama má í raun segja um Neytendastofu en nýlega voru gerðar breytingar á lögum um stofnunina og ekki liggur fyrir hver framtíð starfsemi stofnunarinnar verður sem snýr að eftirliti með réttmætum viðskiptaháttum. Samlegðaráhrif samkeppni á markaði og neytendaverndar eru mikil og er það almannahagsmunamál og kjaramál að þær eftirlitsstofnanir sem vinna að þessum málum séu öflugar.
Rauði þráðurinn í erindum á fundinum sem og í pallborðsumræðum var mikilvægi þessara stofnanna fyrir lífskjör hér á landi, ekki síst vegna smæðar landsins og fákeppni sem hér ríkir. Framsögumenn voru sammála um að margt mætti gera betur í þessum málum og að styrkja og efla þurfi þær stofnanir sem sinna þessum málum. Í dag hafa stofnanirnar bolmagn til að sinna nauðsynlegu eftirliti sem dregur úr jákvæðum áhrifum á lífskjör og hagsæld hér á landi.
Þá var komið inn á stöðu þessara mála í öðrum löndum og erum við eftirbátar nágrannalandanna hvað varðar stuðning við og fjármögnun stofnana og félagasamtaka sem fara með þessi mál þar. Þá má draga lærdóm af stöðunni í öðrum löndum. Í því samhengi má nefna að vísbendingar eru um að skortur á samkeppni og aukin samþjöppun hafi aukið aðgangshindranir í Bandaríkjunum og álagningu fyrirtækja. Þá hafa arðgreiðslur fyrirtækja aukist síðustu áratugi en kaupmáttur almennings minnkað auk þess sem vísbendingar eru um að aukin samþjöppun hafi haft neikvæð áhrif á fjölgun starfa þar í landi.
Hefur Covid eitthvað breytt ykkar starfi eða háttum?
Ekki í grunninn en við höfum auðvitað fylgst náið með verðþróun í faraldrinum og haldið áfram að framkvæma verðkannanir á vöru og þjónustu sem vegur þungt í útgjöldum. Þá hefur mikil fjölmiðlaumfjöllun verið um verðlag í faraldrinum og við höfum verið virk í að greina stöðuna, koma okkar sjónarmiðum á framfæri í fjölmiðlum og benda á mikla veltuaukningu hjá verslun og fleiri jákvæða þætti í rekstrarumhverfi fyrirtækja sem ættu að gera þeim kleift að halda aftur af verðhækkunum. Umræða um efnahagsmál og verðlag er stundum föst í gömlum hjólförum og mætti vera dýpri við höfum reynt að útvíkka umræðuna þannig og taka fleiri þætti inn í myndina í samhengi við verðlagsþróun.
Ekki alltaf allir sáttir við ykkur? Ekki alltaf allir með!
Í lang flestum tilfellum er okkur vel tekið þegar okkar fólk mætir í verslanir til að taka niður verð en inn á milli eru verslunareigendur sem vilja ekki taka þátt og vísa verðtökufólki frá og meina þeim að taka niður verð. Það er miður enda eru verðupplýsingar opinberar upplýsingar sem allir geta nálgast og okkar vinna snýst bara um að safna þeim saman fyrir neytendur. Stundum verðum við vör við að verslunareigendur vantreysti ferlinu og taki þess vegna ekki þátt og byggir það oft á vanþekkingu á verklagi eftirlitsins. Þá leggjum við áherslu á að vera tilbúin til samtals, fara yfir verklagsreglur og af hverju þær eru eins og þær eru ef þörf er á eða þess er óskað. En það eru samt alltaf einhverjir sem neita að taka þátt sama hvað. Oft eru þetta sömu aðilarnir og þeir verða að eiga það við sína samvisku og leggja það undir dóm sinna viðskiptavina ef þeir treysta sér ekki til að upplýsa um verðlag í sínum verslunum.
Nú eruð þið með hóp á Facebook, „Vertu á verði – eftirlit með verðlagi”. Eru margir í hópnum, er hann virkur, eru margir að koma þar inn með ábendingar, hvað er gert með þær?
Árið 2019 stofnuðum við þennan Facebook hóp með það að markmiði að virkja samtakamátt neytenda og auka aðhald til fyrirtækja með þessum vettvangi þar sem fólk getur sett inn innlegg um verðlag. Innleggin eru margskonar, ábendingar um verðhækkanir, hátt verðlag og þá má auðvitað einnig benda á það sem vel er gert og ef fólk er ánægt með verðlag í verslunum enda er ekki síður mikilvægt að benda á það sem vel er gert og skapa þannig hvata fyrir fyrirtæki til að standa sig vel.
Íslendingar tóku vel í stofnun hópsins og hefur hann vaxið statt og stöðugt en meðlimir hópsins í dag eru um 11.500 talsins. Meðlimir hópsins eru mjög virkir og hefur umræða í hópnum oft ratað í fjölmiðla. Hópur sem þessi er mikilvæg viðbót við það aðhald sem verðkannanir verðlagseftirlitsins veita. Þrátt fyrir öflugt verðlagseftirlit getum við aldrei fylgst með öllu alltaf og er því mikilvægt að skapa aðhald úr fleiri áttum.
Við höldum utan um hópinn og fylgjumst með ábendingum og fáum hugmyndir að verðkönnunum og öðru tengdu neytendum sem við teljum vert að skoða nánar eða beita sér í. Verðkannanir skipa enn stóran sess í neytendaáherslum ASÍ en undanfarin ár hefur aukin áhersla verið lögð á neytendamál í víðara samhengi og eru þau orðin hluti af nefndarstarfi sambandsins. Auk verðkannana beitum við okkur fyrir bættu umhverfi á sviði neytendamála á fleiri sviðum þó margt af því tengist auðvitað verðlagi á einhvern hátt.
Stofnun Facebook hópsins er líka liður í aukinni áherslu á upplýsingamál og að ná til fólks úr sem flestum áttum.
Forsíðumynd, Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri Verðlagseftirlits ASÍ
Mynd/ aðsend