Í gær voru afhent verðlaun í ljóðasamkeppni ljóðahátíðarinnar Haustglæða sem fram fór fyrir áramót.
Það voru nemendur í 8. – 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar sem samkvæmt venju tóku þátt í samkeppninni og ortu út frá listaverkum í salarkynnum Menntaskólans á Tröllaskaga, öll listaverkin voru eftir listafólk úr Fjallabyggð.
Alls urðu til um 70 ljóð og hafði hin 5 manna dómnefnd úr vöndu að ráða. En að lokum fór það svo að þrjú ljóð hlutu atkvæði meirihluta dómnefndarinnar og voru höfundar þeirra verðlaunaðir í Ljóðasetrinu.
Svo skemmtilega vildi til að hver bekkur átti sinn fulltrúa meðal vinningshafa, en þeir voru:
Steinunn Svanhildur Heimisdóttir úr 8. bekk. (Birna systir hennar tók við verðlaununum fyrir hennar hönd)
Amalía Þórarinsdóttir úr 9. bekk.
Júlíus Rúnar Bjargþórsson úr 10. bekk.
Verðlaunahafarnir fengu að launum máltíð á veitingastaðnum Torginu á Siglufirði og bókagjafir.
Grunnskóla Fjallabyggðar var þakkað fyrir samstarfið, krökkunum fyrir þátttökuna, veitingastaðnum Torginu fyrir glæsileg verðlaun og Fjallabyggð fyrir stuðning við hátíðina sem Ljóðasetrið og Umf Glói standa að.
Myndir: Halldóra María Elíasdóttir.