Lagt var fram erindi íbúa við Hafnartún 8 og 10 á Siglufirði á 725. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar.

Í erindinu er óskað upplýsinga um stöðu athugunar tæknideildar á tilhögun og verklagi við snjómokstur með tilliti til snjósöfnunar á auðum lóðum við Laugarveg.

Einnig er í erindinu bent á tvo möguleika, annars vegar að hætt verði að ryðja snjó inn á lóð ofan við hús bréfritara og hins vegar að lögð verði drenlögn neðarlega á umræddri lóð sem tæki við vatni þegar uppsafnaður snjór bráðnar.

Einnig er lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar hvar fram kemur að verklagi við snjómokstur verði breytt með þeim hætti að lóðin ofan við Hafnartún 8 – 16 (Laugarvegur 29) verði ekki notuð sem snjósöfnunarstaður. Fyrirkomulagið verði tímabundið og með það markmið að ganga úr skugga um hvort bleyta í lóðum við Hafnartún 8 – 16 stafi af snjósöfnun á vegum bæjarins á lóðinni.

Bæjarráð samþykkir tímabundið breytt verklag og felur deildarstjóra tæknideildar að fylgjast með bleytu á komandi vori og upplýsa ráðið um niðurstöðu eigi síðar en í júní næstkomandi.