Heimsfaraldur kórónaveiru hefur víða miklar og þungar afleiðingar. Síldarminjasafnið verður fyrir miklu höggi vegna þessa, bæði sökum þess að í samkomubanni var safninu gert að loka en ekki síður vegna skorts á ferðafólki.
Safnið treystir mjög á tekjur sem skapast af mótttöku ferðamanna. Nú er staðan sú að 90% þeirra hópa sem bókað höfðu heimsóknir á safnið í vor og sumar hafa afboðað komu sína og tekjufallið verður ekki minna en 30 milljónir króna.
Við vonum að innlendir gestir sæki safnið heim í sumar og tryggi að við fáum áfram að miðla sögu síldarævintýrisins og staðarins með fróðleiksfúsum – en betur má ef duga skal. Erlendir ferðamenn hafa verið um 85% af gestum safnsins yfir sumartímann og því er í stórt skarð að fylla.
Til að tryggja áframhaldandi blómlega starfsemi og vettvang til rannsókna, skráningar, miðlunar og varðveislu býður Síldaminjasafnið almenningi að gerast bakhjarlar safnsins með árlegu fjárframlagi.
Samtakamáttur bæði einstaklinga og fyrirtækja skipar stóran sess í sögu safnsins – en fyrir tilstilli sjálfboðaliða og einstakrar framtíðarsýnar varð safnið til í þeirri mynd sem við þekkjum það í dag. Við leyfum okkur því að biðla til almennings á ný, svo sækja megi fram af þrótti.
Viljið þið vera í hópi bakhjarla safnsins getið þið smellt hér að neðan og fyllt út einfalt eyðublað:
Gerast bakhjarl Síldarminjasafnsins.